Fuglaskoðunarhúsið í Leiruvogi var vígt þann 29. apríl 2009.Fuglahúsið nýtist almenningi og skólum í Mosfellsbæ vel við fuglaskoðun við Leiruvoginn, enda er Leiruvogurinn einstakur hvað varðar fuglalíf allan ársins hring. Auk þess er fuglaáhugamönnum hvaðan æva að heimilt að nýta sér þá góðu aðstöðu sem þarna er í boði. Húsið er vel staðsett nálægt leirunni þar sem fjöldi vaðfugla heldur til, ásamt því að veita góða yfirsýn yfir Langatanga sem margar fuglategundir nýta sér sem hvíldarstað. Inni í húsinu er að finna greinargott upplýsingaskilti um þá fugla sem finna má á leirunni ásamt gestabók sem gestir eru hvattir til að rita nafn sitt í.

STAÐSETNING OG KORT

Húsið er staðsett við Langatanga neðan við golfvöllinn í Mosfellsbæ. Aðgengi að húsinu er gott með göngustígum sem liggja meðfram ströndinni eða frá golfskálanum. Aðstaða fyrir fatlaða er góð og geta fatlaðir athafnað sig sjálfir í húsinu.

Lyklar að fuglaskoðunarhúsi fást afhentir í Íþróttamiðstöðinni Lágafelli, Lækjarhlíð 1a, virka daga frá kl. 6:30 til 21:30 og um helgar frá kl. 8:00 til 19:00. Auk þess eiga sérlegir fuglaáhugamenn eða félög þess kost að fá lykil til umráða til varðveislu. 

Nánari upplýsingar má fá í þjónustuveri Mosfellsbæjar í síma 525 6700.

KORT AF STAÐSETNINGU fuglaskoðunarhúss

Kort af fuglaflórunni í Leiruvogi

Fuglaskoðunarhúsið er mikilvæg aðstaða fyrir fuglaáhugafólk því Leiruvogur er einstakur hvað varðar fuglalíf allan ársins hring. Mosfellsbær er útivistarbær og er nálægðin við náttúruna í Mosfellsbæ einstök. Fuglaskoðunarhúsið bætir þjónustu við þann hóp fólks sem nýtur þess að fylgjast með fuglum í sínu náttúrulega umhverfi og undirstrikar jafnframt mikilvægi fuglalífs í Leiruvogi.


Greinin er tekin af síðunni www.mosfellsbaer.is

Previous articleFuglarnir elska matarafganga
Next articleFuglaskoðunarhús á Akureyri