Margir góðir staðir eru til fuglaskoðunar á Akureyri og í næsta nágrenni bæjarins og er búið að koma fyrir fuglaskoðunarhúsum á fjórum stöðum innan sveitarfélagsins. Þessi svæði eru Naustaborgir, Krossanesborgir, óshólmar Eyjafjarðarár og í Hrísey. Í fuglaskoðunarhúsunum er góð aðstaða fyrir fuglaskoðendur og yfirlitsmyndir um þær fuglategundir sem er að finna á viðkomandi stað. Í meðfylgjandi korti má sjá staðsetningu fuglaskoðunarhúsanna og hvernig er best að komast að þeim, á Akureyri og nærsvæði og Hrísey
Krossanesborgir:
Áhugaverðasta svæðið eru Krossanesborgir sem er rúmlega 1 km2 stórt, en þar má finna um 500 til 600 pör af mörgum tegundum sem verpa þar. Í borgunum verpa samkvæmt talningum frá 2003 a.m.k. 27 tegundir fugla. Meðal tegunda má telja: kríu, hettumáf, silfurmáf, sílamáf og stormmáf, jaðraka, ýmsar endur og gæsir s.s. grafönd og grágæs auk margvíslegra vað- og mófugla. Yfirlitsmynd af fuglategundum við Krossanesborgir. Þar er fuglaskoðunarhús
Um svæðið liggja slóðar, sem lagðir hafa verið til að auðvelda gestum að njóta svæðisins. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Frétt á Akureyri.is um fuglalíf í Krossanesborgum og skýrsla frá 2013.
Í óshólmum Eyjafjarðar:
Óshólmar Eyjafjarðarár, sem er stærsta óshólmasvæði landsins eru taldar verpa allt að 33 tegundir fugla eða rúmlega 40% af varpfuglafánu Íslands. Hettumáfur og æðarfugl eru algengustu fuglarnir á svæðinu, en í kjölfarið fylgja kría, grágæs, hrossagaukur, spói, rauðhöfðaönd o.s.frv. Fjórar tegundir á svæðinu, grágæs, skeiðönd, grafönd og stormmáfur, eru á válista Náttúrufræðistofnunar.
Yfirlitsmynd af fuglategundum við Óshólmana. Skýrsla um talningar á fuglalífi í óshólmum Eyjafjarðarár: Könnun 2010 með samanburði við fyrri ár
Naustaborgir:
Naustaborgir kallast klettaborgir nokkrar, háar og áberandi, fyrir norðan tjaldsvæðið að Hömrum. Aðalborgirnar eru tvær, Ytri- og Syðri-Borg (Borgir) og er sú hærri um 130 m h.y.s.. Vestan við Naustaborgir er breiður og flatur flói og í honum dálítil tjörn, sem Hundatjörn nefnist. Fulgaskoðunarhús er staðsett við tjörnina.
Yfirlitsmynd af fuglategundum við Naustaborgir. Yfirlitsmynd af fuglaskoðunarhúsum á Akureyri.
Hrísey:
Í eynni er mjög góð aðstaða til fuglaskoðunar og þar er einnig fuglaskoðunarhús.
Hrísey er þekktust fyrir þéttasta varp rjúpna á Íslandi og mjög stórt kríuvarp. Þar eru allir helstu vaðfuglar og mófuglar landsins, varp anda og sjófugla er töluvert.
Yfirlitsmynd af fuglategundum í Hrísey. Yfirlitsmynd af fuglaskoðunarhúsi í Hrísey.
Grímsey:
Grímsey er besti staðurinn hér um slóðir til að skoða bjargfugla; fýl, lunda, ritu, stuttnefju, langvíu og álku. Þar er einnig eitt stærsta kríuvarp landsins.
Greinin er tekin af síðunni http://www.visitakureyri.is