Þann 5 maí 2024 var ég heima í rólegheitum og hafði nýlokið við kvöldmatinn, það var eitthvað eirðarleysi í mér svo að ég fór að skrolla í símanum til að athuga hvort það væru ekki einhverjar tilkynningar um flækingsfugla. Vonin var að einhver hefði séð spennandi fugl sem gaman væri að eltast við til að fá smá útrás fyrir svefninn. Ég sá strax að það hafði borist tilkynning um að hrísastelkur hefði fundist á Sandgerðistjörn um morguninn sama dag. Ég hafði aldrei séð hrísastelk og það var ekki svo langt fyrir mig að fara, þetta var því alveg tilvalið verkefni fyrir mig til að eyða kvöldinu í. Ég henti því næst myndavélunum út í bíl og dreif mig af stað, Þegar ég kom á svæðið var klukkan orðin rúmlega 20:00 og orðið frekar dimmt yfir með rigningu á köflum. Ég lagði bílnum við tjörnina og teygði mig eftir sjónaukanum á meðan ég horfði út um gluggann og skannaði yfir tjörnina. Langt úti í tjörninni sá ég glitta í tvo gráa fugla sem úr fjarlægð virtust vera eins. Ég sá strax að þetta var eitthvað sem ég kannaðist ekki við svo að ég sleppti því að taka upp sjónaukann og tók í staðinn upp myndavélina sem lá líka í sætinu við hlið mér tilbúin ef hennar yrði þörf. Ég var reyndar með tvær myndavélar í sætinu, sú sem varð fyrir valinu var Canon EOS 1D X Mark II með Canon EF 600mm F/4 IS linsu plús 1.4x stækkara, sem gerir 840mm. Það er fínt að nota þessa samstæðu í staðinn fyrir sjónauka ef maður á von á því að þurfa að smella af myndum strax til þess að festa sjaldgæfa flækinga á mynd.

Ég smellti nokkrum myndum af fuglinum þó að hann væri of langt í burtu til þess að vera í nokkru myndafæri. Ég stækkaði myndirnar upp í myndavélinni og sá að þetta var ekki hrísastelkurinn þó að fuglinn væri svipaður að sjá úr fjarska. Ég hafði ekki séð þennan fugl áður en mig grunaði að þetta væri grálóa því að höfuðlagið var eins og á heiðlóu og augun voru einnig stór, en ég fékk það svo staðfest nokkrum mínútum síðar hjá Guðmundi Falk vini mínum að ágiskun mín væri rétt.

Ég snéri mér því næst að hinum fuglinum sem var aðeins nokkra metra frá grálóunni, nánast á sama stað, ég sá strax að þetta var hrísastelkurinn, það fór ekkert á milli mála. Ég tók nokkrar myndir af honum til þess að hafa einhverja staðfestingu og til að geta stækkað myndirnar upp og skoðað betur. Ég ætlaði því næst að skoða grálóuna betur en þá var hún farin og ég sá hana ekki meira. Þetta kenndi mér enn og aftur að smella af myndum strax til að hafa möguleika á að skoða veiðina betur og til að hafa myndir til staðfestingar á fundinum.

Þessi ferð gaf mér því óvænt tvo nýja fugla á lífslistann minn og það er ekki annað hægt en að gleðjast yfir því.

P.s. fyrir þá sem hafa áhuga á myndavélum og eru að spá í hvaða myndavél ég var einnig með í sætinu við hlið mér þá var það Canon EOS 7D Mark II, með Canon 400mm f/4 DO IS með 1.4x stækkara á. Myndavélin er með 1.6x crop sensor svo að aðdrátturinn verður nokkuð góður. Við erum að tala um 400×1.4=560mm x 1.6 crop= 896mm. Þessi myndavél ásamt linsunni og stækkaranum gefa mér ótrúlega skarpar myndir, ég er búinn að fara með þennan búnað til Óskars Andra Canon sérfræðings og láta hann stilla þetta allt saman svo ég nái hámarks skerpu út úr þessu setti.

Hér fyrir neðan eru myndir af grálóunni sem voru teknar þann 5.maí 2024. Ég vill byrja á að afsaka gæði myndanna en þær voru teknar á mjög löngu færi, ég lét fylgja með eina ókroppaða mynd svo þú áttir þig á fjarlægðinni, samt er sú mynd tekin með 840mm linsu. Á einni myndinni sést hrísastelkurinn í bakgrunni.


Hér fyrir neðan eru svo myndir af hrísastelknum sem var einnig á jafn löngu færi.

Previous articleNýpsfjörður í Vopnafirði
Next articleFuglafit – Fyrsti þáttur – Samskipti fugla