Hér fyrir neðan eru myndir sem ég tók af laufsöngvara þann 21 maí 2023. Þennan dag var rigning og rok um allt land, eins og veðrið er búið að vera síðustu vikur, ég man eftir einum ágætum sólardegi í vor en ekki meira en það. Hver lægðin á fætur annari er búin að berja á okkur og í leiðinni flytja flækingsfugla til landsins. Þessi laufsöngvari er einn af þeim fuglum sem hefur hrakist hingað til lands í óveðri síðustu daga og vikna. Ég nennti ekki að sitja heima og horfa á rigninguna berja gluggana þennan dag svo að ég ákvað að kíkja í heimsókn til Grindavíkur og freista þess að sjá þar fimm kanadagæsir sem Eyjólfur Vilbergsson hafði fundið fyrr um morguninn. Ég fór heim til Eyjólfs og við héldum af stað á bílnum hans í leit af þessum gæsum. Þegar við komum á staðinn þar sem Eyjólfur hafði séð kanadagæsirnar fyrr um morguninn þá voru þær þar enn og við gátum snúið bílnum undan rigningunni og myndað þær úr bílnun. Myndirnar voru þó teknar af löngu færi og aðstæður slæmar fyrir myndatöku vegna veðurs þannig að það komu ekki góðar myndir út úr þessari myndatölu, en myndir þó.

Á heimleiðinni ákvað ég að koma við í Sólbrekkuskógi og skoða hvernig aðstæður væru þar fyrir myndatöku því að mig langaði að sjá þar laufsöngvarann sem er á myndunum hér fyrir neðan. Hann var búinn að halda til þar í nokkra daga. Þegar ég keyri inn afleggjarann að skóginum þá hættir allt í einu að rigna og það birtir heilmikið til. Ég þarf því ekki að hugsa mig neitt meira um og held af stað inn í skóginn í leit að þessum laufsöngvara sem ég hef aldrei á ævinni séð áður. Þegar ég er kominn á þær slóðir sem ég held að fuglinn haldi sig á þá fer ég í vasann og sæki símann, á netinu finn ég upptöku af syngjandi laufsöngvara og prófa að spila hana úr símanum. Það heyrðist ekki hátt í símanum en ég vonaði að það bærist til hans. Mér heyrðist koma svar frá honum stuttu eftir að ég byrjaði að spila, en ég sá hann þó ekki. Ég spilaði sönginn aftur nokkrum sinnum og á endanum var ég hættur að heyra hvort söngurinn sem ómaði kæmi úr símanum eða skóginum, ég prófaði því að færa mig á opnara svæði og spila aftur, þá sá ég eitthvað útundan mér sem þaut framhjá mér, ég var samt ekki alveg viss um hvort ég hefði séð eitthvað fyrr en þetta var búið að gerast nokkrum sinnum því að fuglinn flaug svo hratt. En nú heyrði ég sönginn betur og söngvarinn fór að sýna sig meira. Og um leið og hann fór að sýna sig þá birti enn meira til og sólin fór líka að sýna sig annað slagið í gegnum dökku skýin.

Laufsöngvarinn virtist vera mikil félagsvera og hélt sig nálægt mér allan tímann sem ég var í skóginum, hann skoppaði á milli trjánna í kringum mig og ef ég spilaði sönginn hans úr símanum þá kom hann þjótandi framhjá mér alveg þétt uppvið mig. Nú var birtan orðin fullkomin fyrir myndatökur svo að ég sparaði ekkert myndavélina, erfiðast var að finna hann í linsunni því að hann var stundum svo nálægt mér að hann fyllti alveg út í rammann. Það kom mörgum sinnum fyrir að hann sat á grein rétt hjá mér í fullkomnu færi og með frábærann bakgrunn en þá fann ég hann ekki í linsunni og áður en ég vissi af þá var hann farinn í næsta tré og ég hafði misst af þessu frábæra augnabliki.
Ég stoppaði í skóginum sennilega í klukkustund, annars var ég ekkert að fylgjast með tímanum svo að þetta er bara ágiskun, það getur vel verið að ég hafi verið mikið lengur. En þegar ég var búinn að fullvissa mig um að ég hefði náð mörgum flottum myndum af honum þá ákvað ég að það væri kominn tími á heimferð svo að ég röllti til baka að bílnum.

Um leið og ég set bílinn í gang þá dimmir yfir aftur og þegar ég keyri út afleggjarann frá Sólbrekku þá byrjar úrhellisrigningin aftur. Ég var ótrúlega þakklátur fyrir þennan frábæra veðurglugga sem ég fékk þarna þó að allan tímann hafi vindurinn blásið vel.

Smelltu á “spila” takkann hér fyrir ofan til að hlusta á laufsöngvara.
Previous articleÞað þarf ekki alltaf að fara langt til að ná góðum myndum!
Next articleÞernumáfur – Sabine’s Gull