Síðustu tvo daga er ég búinn að keyra 800 kílómetra til að mynda fugla, en ég var að eltast við flækingsfugla og það getur þurft að ferðast langar leiðir til að sjá þá. Svo getur gengið misjafnlega að finna fuglana líka, því þetta snýst nefnilega aðeins um heppni líka. Á laugardaginn fór ég með dætrum mínum á Vík í Mýrdal til að mynda mandarínendur sem halda þar til þessa dagana. Planið var samt ekki að fara þangað fyrr en á sunnudeginum, við ætluðum að fara beint í sumarbústaðinn okkar, gista þar og leggja svo snemma af stað á Vík um morgunin. Ég fékk hins vegar svo sterkt hugboð á leiðinni um að við yrðum að fara beint á Vík ef við ætluðum að sjá endurnar að ég ákvað aldrei eins og vant að hlusta á hugboðið og breytti ferðaáætlun okkar þannig að við fórum beint á Vík í mígandi rigningu og roki. Við fundum mandarínendurnar í annarri yfirferð eftir að hafa skannað allar tjarnir á svæðinu. Það var eins og áður sagði mígandi rigning, rok og mjög dimmt í veðri sem gerir alla fuglaljósmyndun nánast ómögulega. Við gerðum þó tilraunir til að mynda út úr bílnum en vindurinn stóð alltaf upp á rúðuna sem við þurftum að opna og það var allt komið á flot inni í bílnum. Við þurftum að þurrka reglulega vatn af glerinu á linsunum og þetta gekk allt hálf brösulega. Þegar okkur fannst vera kominn tími til að gefast upp og halda áfram í bústaðinn þá hætti skyndilega að rigna í augnablik, það varð til þess að ég gat fært mig og myndað úr annarri átt. Það má segja að þetta hafi bjargað ferðinni því að á þessu augnabliki varð til ein mynd sem er ekki alveg ónothæf. En það eru hins vegar girðingarvírar á henni sem mér finnst ekki alveg eiga heima á henni. En það sem mestu máli skiptir er að dæturnar fengu að sjá þessar endur í fyrsta skiptið og þær gleyma þessari ferð seint.

Við létum þetta nægja í bili og héldum í bústaðinn okkar sem er við Heklurætur, það tók okkur einn og hálfan klukkutíma að aka í bústaðinn. Næsta dag var orðið mjög léttskýjað og heiðskýrt á köflum, það var komið frábært veður fyrir fuglaljósmyndun. Við drifum okkur af stað og ókum til baka á Vík í Mýrdal, það var mikil spenna að fá nú að mynda endurnar við bestu aðstæður. En í þetta skiptið þá leituðum við um allt en fundum endurnar hvergi. Þá voru góð ráð dýr, hvað gerum við nú? eftir smá vangaveltur þá ákváðum við að fara á Eyrarbakka og freista þess að finna þar straumerlu sem hafði sést í fjörunni þar deginum áður. Við gengum fjöruna á enda en urðum ekki vör við þessa straumerlu. En við sáum hinsvegar landsvölu og bæjasvölu á sveimi yfir fjörunni, okkur tókst þó ekki að ná myndum af þeim.
Það var komin smá þreyta í hópinn á þessum tímapunkti og við ákváðum að halda af stað heim á leið, þó með einu stoppi í Grindavík, því við höfðum frétt af barrfinku í húsagarði þar, hjá honum Eyjólfi Vilbergssyni og hann var búinn að bjóða okkur í heimsókn til að skoða hana. Þegar við komum til Grindavíkur þá var klukkan orðin rúmlega sjö og Eyjólfur sagði okkur þegar við komum að barrfinkan væri búin með kvöldmatinn og væri nýfarin, líklega farin að nátta sig. En við þurftum ekki að bíða nema í mesta lagi 5 mínútur og þá mætti hún aftur og leyfði okkur að smella af nokkrum myndum en lét sig svo hverfa á ný. Þessi stutta endurkoma hennar bjargaði hjá okkur deginum.

Þessar örfáu myndir sem við tókum af barrfinkunni voru frekar óskýrar þannig að það má segja að myndauppskera helgarinnar hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir.

Á mánudagskvöldinu eftir þetta ferðalag okkar þá er ég að leggja bílnum í stæðið heima og ég horfi yfir túnið fyrir framan húsið mitt. Þar er heiðlóa á vappi að týna upp orma, sólin er alveg að setjast og hún varpar mjúkum sólargeislunum á lóuna. Ég hugsa strax að það sé nú meira vit í því að eltast við þennan fugl og gríp myndavélina sem liggur í sætinu við hliðina á mér. Ég labba áleiðis að lóunni og haninn minn kemur röltandi á móti mér, það vekur líklega upp smá forvitni hjá lóunni að sjá þennan hana rölta til mín en ég sé að hún er samt farin að ókyrrast. Ég leggst því í grasið og byrja að mjaka mér nær henni, það reyndist frekar erfitt að skríða með stóra myndavél í fanginu þannig að ég prófa að rúlla mér á hlið sem var mun þægilegra. Ég veit ekki hvað ég rúllaði mér langt en ég fór fram og til baka á túninu og færðist alltaf aðeins nær lóunni í hverri ferð. Hún starði á mig eins og ég væri úr öðrum heimi. Í hverri ferð sem ég rúllaði mér þá stoppaði ég reglulega og myndaði lóuna í bak og fyrir. Ég komst á endanum í frábært myndafæri og var búinn að ná fullt af frábærum myndum þegar lóan ákvað loksins að láta sig hverfa.

Hér eru fleiri myndir af þessari heiðlóu.

Previous articleHeiðlóuhreiður á Reykjanesi
Next articleLaufsöngvari í Sólbrekkuskógi