Skóg­arþröst­ur er fag­ur fugl og skemmti­leg­ur og ekki mat­vand­ur, étur nán­ast hvað sem er. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Innlent | Morgunblaðið | 4.11.2016 | 18:30

Í stað þess að henda matarafgöngum er heillaráð að gefa fuglum himinsins þá og draga þannig úr matarsóun. Nú þegar garðfuglakönnun Fuglaverndar fyrir veturinn er farin af stað, vill félagið hvetja fólk til að fóðra fugla við vinnustaði ekki síður en heimili og skrá hjá sér hvaða fuglar mæta í mat­inn.

Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar, segir þá sem gefa fuglum reglulega hafa mikinn félagsskap af þeim, enda skemmtileg og falleg dýr. Fuglar eru ekki matvandir, éta næstum hvað sem er. Steiktur laukur er mjög vinsæll.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við kunnum vel að meta þegar fólk hefur samband við okkur og segir okkur sögur úr sinni fuglakönnun. Fuglar eru skemmtilegir og það er gaman að njóta félagsskapar við þá. Margir eldri borgarar gefa fuglum reglulega og alltaf á sama tíma, og þeir segja þresti til dæmis banka upp á og biðja um sinn mat, ef hann er ekki kominn á réttum tíma. Starinn er líka skemmtilegur fugl og einstaklega flink eftirherma,“ segir Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar, en nýlega fór af stað árleg garðfuglakönnun fyrir veturinn á vegum Fuglaverndar þar sem fólk er hvatt til að skrá niður hvaða fuglar koma í garðinn hjá því.

Fuglar í stað hunda

Hólmfríður segir að til að tæla sem flesta fugla í garðinn sé um að gera að setja æti út fyrir þá.

„Á heimasíðunni okkar er hægt að prenta út sérstakt blað til að skrá fuglana og við hvetjum vinnustaði sérstaklega til að láta slíkt blað liggja á kaffistofum hjá sér svo starfsfólk geti tekið þátt í könnuninni. Á vinnustöðum falla til matarafgangar rétt eins og á heimilum og um að gera fyrir vinnuveitendur að hafa svæði úti við vinnustaði þar sem hægt er að henda slíkum afgöngum handa fuglunum. Fólk á vinnustöðum hefur látið okkur vita hvað þetta er gaman. Auðvitað fáum við líka að heyra frá fólki sem stundar fuglakönnun í sínum heimagörðum og sumir eru afar áhugasamir, segjast gefa fuglunum í stað þess að eiga hund,“ segir Hólmfríður og bætir við að fólk geti byrjað hvenær sem er í fuglatalningunni, það skipti engu þó hún hafi farið af stað í lok október.

Fuglar þurfa fitu á vetrum

Hólmfríður segir að margir byrji fuglatalninguna smátt, til dæmis í sumarhúsum sínum að vori og hausti, en þeir sem séu með heilsárssumarhús gefi margir fuglunum allan veturinn, en síðan færa þeir sig heim og gefa fuglunum þar í garðinum.

„Þetta fólk hefur komist að því að það koma ekki alltaf sömu fuglategundir á sumarhúsalóðina og í borgargarðinn. Snjótittlinga er til dæmis erfitt að fá inn í þrönga garða í þéttbýli, en þeir koma aftur á móti gjarnan að sumarhúsum þar sem eru opin svæði, þeirra fæðuval er svo aðeins fábreyttara en hjá þröstunum til dæmis, þó þeir laumist í kjötsag á köldum vetrardögum.“

Hún segir marga fugla vera alætur og því sé hægt að gefa þeim næstum hvað sem er, til að lokka þá í garðana.

„Fólk getur vissulega keypt sérstakt fuglafóður, en brauð er líka heppileg fuglafæða. Það er um að gera að setja út í garð smurðu íbitnu brauðafgangana og líka brauð sem er orðið lélegt og enginn vill borða. Gott er að rífa brauðið niður í bita og um að gera að setja olíu á brauðið ef það er kalt úti. Fita er afar góð fyrir fugla á vetrum í hörðum frostum, svo þeir geti haldið á sér hita. Marg­ir setja tólg út í pott, blanda sam­an við hafragrjónum, gömlu brauði, rúsínum, ávöxtum og hverju því sem til fellur. Fuglarnir eru mjög sólgnir í þetta.“

Fjör í ljósaskiptunum

Hún segir skógarþröstinn ekki vera matvandan, hann éti næstum hvað sem er, en þó ekki grænmeti, en ávextir og vínber sem eru farin að láta á sjá eru tilvalin fuglafæða. „Rúsínur henta líka vel og steiktur laukur er mjög vinsæll hjá fuglum og þeir eru líka hrifnir af hverskonar morgunkorni. Kjötafgangar henta einnig ágætlega fyrir suma fugla, en hrafninn er vissulega sérlega sólginn í slíka fæðu, svo þeir sem vilja lokka hann til sín geta sett út á opið svæði beinin eftir helgarsteikina, en alltaf þarf að huga að hreinlæti,“ segir Hólmfríður og bætir við að góður tími til að gefa fuglunum sé í ljósaskiptunum, þá sé oft fjör í garðinum.

Á heimasíðu Fuglaverndar, www.fuglavernd.is, er hægt að nálg­ast sérstök eyðublöð til að skrá fuglana. Einnig er hægt að hringja í Fuglavernd eða senda tölvupóst og láta senda sér blöð. S.: 562 0477 netfang: fuglavernd@fuglavernd.is