(Greinin hér fyrir neðan var áður birt á heimasíðu sveitarfélagsins Garður en þeirri heimasíðu hefur nú verið eytt, ég ákvað að bjarga greininni og birta hana hér á síðunni wildlife.is til þess að fólk hafi áfram aðgang að þeim fróðleik sem Jóhann Óli býður lesendum uppá.) Kv.Ægir G.

Garðskagi er rómaður fyrir fjölbreytt fuglalíf árið um kring. Lega skagans og fjölbreytt búsvæði gera hann að einum besta fuglaskoðunarstað landsins og er Garðskagi þekktur meðal fuglaskoðara víða um heim. Aðrar fjörur í Garði ásamt síkjunum þremur: Útskálasíki, Miðhúsasíki og Gerðasíki, laða að sér fjölbreytt fuglalíf á öllum árstímum, en síkin leggur þó venjulega yfir háveturinn.

Nærri 200 tegundir fugla hafa sést í Garði, sumir þeirra aðeins einu sinni, en margir oftar. Ekki er hægt að gera öllum fuglum skil hér, en fjallað um algengustu fugla eða algenga fulltrúa ákveðinna ætta eða ættkvísla.

Neðst á síðunni má skoða þá fuglaflokka sem eru við Garðskaga:

Texti og myndir:
Jóhann Óli Hilmarsson


Álka

(Alca Torda)

Álkan er tekin hér sem fulltrúi svartfugla, hún er oftast þeirra algengust, en í raun má búast við flestum íslenskum svartfuglum við Garðsskaga. Álka er miðlungsstór svartfugl, svört að ofan en hvít að neðan. Á veturna er hún ljósari á höfði og hálsi en á sumrin. Lengd 37-39 cm, þyngd um 600 g, vænghaf 63-68 cm. Álkur sjást allt árið við Garðsskaga, en mjög mismargar. Aðrir svartfuglar sem sjást árið um kring eru langvía og teista. Lundi sést á sumrin og haftyrðill er óreglulegur vetargestur.


Dílaskarfur

(Phalacorax Carbo)

Stór og dökkur sjófugl. Varpfuglar eru með hvíta bletti á kverk, vöngum og lærum. Ungfuglarnir eru ljósir á kviði og bringu. Að öðru leyti virðist fuglinn vera svartur. Skarfar eru góðir kafarar, en fremur þungir til flugs og fljúga oft lágt yfir sjó með langan hálsinn útréttan. Það einkennir skarfa, að standa á skerjum eða hafnargörðum með útbreidda vængi og er það kallað að messa. Lengd 80-100 cm, þyngd um 3 kg, vænghaf 130-160 cm. Dílaskarfur og frændi hans toppskarfur, sem er minni og fíngerðari (ungfuglinn dekkri), eru algengir á Suðurnesjum allt árið, en eru þó aðallega vetrargestir. Þeir sjást í tuga- eða jafnvel hundraðatali frá Stafnesi út í Garð. Skagaflösin er vinsæll setstaður skarfa.


Fýll

(Fulmarus glacialis)

Sjófugl af ætt pípunasa. Fýllinn er hvítleitur á höfði og að neðan, en gráleitur að ofan og með dökka vængbrodda. Auðgreindur frá máfum á fluglaginu, tekur fáein vængjatök og lætur sig svo svífa á stífum vængjunum. Ofan á gildum goggnum eru nasirnar í pípum. Lengd 45-56 cm, þyngd um 1 kg, vænghaf 102-112 cm. Hann sést við Garðsskaga frá því í janúar fram í október, oftast á flugi útifyrir, stundum í stórum hópum. Algengur varpfugl í fuglabjörgum Suðurkjálkans.


Heiðlóa

(Pluvialis apricaria)

Meðalstór vaðfugl, auðþekkt í sumarfiðri á hvítbrydduðum svörtum lit frá andliti niður háls, bringu og aftur á kvið. Gul- og svartdröfnótt að ofan. Á haustin tapar lóan svarta litnum og er þá dröfnótt frá höfði niður á bringu. Heiðlóa er þrekvaxin, með stuttan svartan gogg og svarta fætur. Rödd hennar er eitt af einkennum íslenska sumarsins. Lengd 26-29 cm, þyngd um 200 g, vænghaf 67-76 cm. Heiðlóan verpur dreift um öll Suðurnes, enda búsvæði víða við hennar hæfi þar sem land er hæfilega gróið. Vor og haust eru lóurnar í stórum hópum í túnum og fjörum. Þær koma snemma og fara seint, fyrstu fuglarnir sjást í venjulega í aprílbyrjun og þeir síðustu fara í nóvember eða jafnvel í desember.


Hettumáfur

(Larus ridibundus)

Minnsti máfurinn, sem verpur hér á landi. Á sumrin er hettumáfurinn ljósgrár á baki, hvítur á bringu og með dökka hettu. Hann missir hettuna í ágúst, en fær hana aftur í mars. Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan, en lýsast þegar líður á haustið. Lengd 34-37 cm, þyngd um 300 g, vænghaf 100-110 cm. Er bæði sumar- og vetrargestur, sem heldur sig með öðrum máfum við afrennsli fiskvinnslustöðva og er mergðin mjög breytileg, allt frá fáeinum fuglum uppí nokkur hundruð. Stærstu hóparnir sjást venjulega á útmánuðum, en minnst er af honum yfir háveturinn. Sækja talsvert inná tjarnirnar til baða.


Hvítmáfur

(Larus hyperboreus)

Stór máfur, gengur næst svartbaki að stærð. Fullorðnir fuglar eru alhvítir nema ljósgráir á baki og yfirvængjum. Á veturna er hausinn brúnflikróttur. Ungfuglarnir eru ljósari en aðrir máfar. Grámáfur er samheiti yfir ungfugla stórra máfa, en það getur vafist töluvert fyrir fólki að aðgreina þá og krefst æfingar og yfirlegu. Lengd 62-68 cm, þyngd 1, 5 kg, vænghaf 150-165 cm. Aðallega vetrargestur, en er þó viðloðandi allt árið og sjást aðallega geldfuglar á sumrin. Algengasti máfurinn á veturna ásamt svartbaki. Bjartmáfur er líkur hvítmáfi, en minni og fíngerðari. Hann er vetrargestur frá Grænlandi og er algengastur frá október til apríl.


Kjói

(Stercorarius parasiticus)

Meðalstór fugl, rennilegur með langa vængi og langar fjaðrir í miðju stéli. Tvö litarafbrigði eru til af kjóa. Hið dökka er algengara, þeir fuglar eru aldökkir með ljósar skellur í vængendum. Ljósir kjóar eru ljósir á kviði, bringu og hálsi, með dökka hettu. Fætur og goggur eru svartir. Kjóinn þreytir fugla á flugi og rænir æti þeirra. Helstu fórnarlömbin eru kría, lundi, rita og fýll. Lengd 41-46 cm, þyngd um 400 g, vænghaf 110-125 cm. Sést við ströndina frá því um miðjan apríl fram eftir september. Hann er varpfugl á Suðurnesjum og verpur sums staðar í dreifðum byggðum. Frændi kjóans, skúmur (Catharacta skua) er stærri og þreknari, hann er einnig algengur úti fyrir ströndinni á sumrin.


Kría

(Sterna paradisaea)

Lítill og rennilegur sjófugl, með langa og mjóa vængi og djúpklofið stél. Ljósgrá með svarta hettu, rauðan hvassan gogg og stutta rauða fætur. Ungfuglar eru með styttra stél, hvítt enni og dekkra bak. Krían er afbragðs flugfugl og þekkt fyrir að verja egg sín og unga af miklu harðfylgi. Sækjast aðrir fuglar því eftir að verpa innan um hana. Sækir sér fæðu á fjöru og grunnsævi. Lengd 33-35 cm, þyngd um 120 g, vænghaf 75-80 cm. Kríur sjást frá mánaðamótum apríl/maí fram í september, stöku ungfuglar fram í október. Krían er einn algengasti fuglinn við Garðsskaga yfir sumarið og hún er algengur varpfugl í Garði.


Lóuþræll

(Calidris alpina)

Lítill vaðfugl, í sumarfiðri er hann auðþekktur á svartri svuntu á neðanverðri bringu og aftur á kvið. Goggur er fremur langur, svartur og lítið eitt niðursveigður. Fætur eru svartir. Ungfuglar og fullorðnir fuglar á haustin eru án svörtu svuntunnar og minna þá nokkuð á sanderlur. Félagslyndur fugl. Lengd 16-20 cm, þyngd um 50 g, vænghaf 38-43 cm. Lóuþræll verpur hér og þar í deiglendi á Suðurnesjum. Mikil umferð lóuþræla er um fjörurnar vor og haust. Þeir fara að sjást uppúr 20. apríl, og sjást út maí, fyrst íslenskir og síðan grænlenskir. Lóuþrælar fara að safnast í fjörurnar á ný í lok júní og stendur farið fram í septemberbyrjun, en fáeinir sjást fram eftir október.


Maríuerla

(Motacilla alba)

Lítill og kvikur spörfugl, með langt stél sem hann veifar í sífellu. Maríuerlan er grá á baki; kollur, kverk og bringa eru svört og enni og vangar hvítir. Goggur fíngerður, svartur eins og fæturnir. Flugið er bylgjótt. Farfugl sem fer alla leið til V-Afríku á veturna. Lengd 18 cm, þyngd um 22 g, vænghaf 25-30 cm. Maríuerlan fer að sjást uppúr miðjum apríl. Hún er algengur varpfugl meðfram ströndinni á Rosmhvalanesi, en einnig inn til landsins. Maríuerlur fara snemma, flestar í seinni hluta ágúst og fyrri hluta september, fáeinar dvelja þó lengur. Þær eru tíðar í fjörunum síðsumars, en eru ekki eins félagslyndar og þúfutittlingar og eru ekki í hópum.


Rauðbrystingur

(Caldris canutus)

Meðalstór, þybbinn vaðfugl. Í sumarbúningi er hann rauðbrúnn á höfði og búk með gráa vængi. Í haustin og veturna er rauðbrystingur grár og virðist hreistraður að ofan. Goggur og fætur eru stuttir og svartir. Lengd 23-25 cm, þyngd um 150 g, vænghaf 57-61 cm. Rauðbrystingur er umferðarfarfugl. Á vorin sjást fuglarnir frá því síðla í apríl og út maí. Haustfarið dreifist yfir lengri tíma en vorfarið og hóparnir eru minni. Rauðbrystingar fara að sjást aftur um miðjan júlí. Fullorðnu fuglarnir koma fyrst, en ungarnir seinna. Flestir eru farnir um miðjan ágúst, en slæðingur er þó fram undir miðjan september. Stöku fuglar sjást á veturna.


Rita

(Rissa tridactyla)

Lítill máfur, aðeins stærri en hettumáfur. Rita er auðþekkt á alsvörtum vængbroddum, gulum goggi og svörtum fótum. Ungfuglar eru með dökka bekki ofaná vængjum, svartan stélenda og svartan gogg. Lengd 38-40 cm, þyngd um 400 g, vænghaf 95-120 cm. Ritan er algengasti bjargfuglinn á Reykjanesskaga, þær verpa m.a. í Hólmsbergi, Hafnabergi, Eldey og Krísuvíkurbergi. Þær sjást við Garðsskaga frá því í mars/apríl og fram í september/október, oft í stórum hópum. Síkin í Garði eru vinsælir baðstaðir ritu og þær sitja oft hundruðum saman á Garðsskagaflös.


Sanderla

(Calidris alba)

Lítill, kvikur og ljósleitur vaðfugl. Á sumrin er hún rauðbrún á höfði, hálsi og baki. Annars er sanderlan hvítleit með dekkra bak. Vængbelti eru áberandi hvít. Minnir á lóuþræl, en er ljósari og með styttri gogg. Goggur og fætur svartir. Hleypur til og frá í sandfjörum, eltandi öldusogið og tínir æti. Lengd 20-21 cm, þyngd um 60 g, vænghaf 40-45 cm. Sanderlan er umferðarfugl (eins og rauðbrystingur og tildra). Nokkur þúsund fuglar hafa viðdvöl við Faxaflóa á leið frá vetrarstöðvum við strendur V-Evrópu (aðallega á Bretlandseyjum) og V-Afríku (allt suður til Namibíu), til varpstöðva á NA-Grænlandi. Rosmhvalanes er afar mikilvægt fyrir sanderluna, stór hluti stofnsins hefur viðkomu í maí og fyrri hluta júní á norðurleið og frá miðjum júlí fram eftir ágúst á suðurleið.


Sandlóa

(Charadrius hiaticula)

Lítill og kvikur vaðfugl, auðþekkt á svörtum hálskraga og hvítri og svartri „grímu“. Sandlóan hleypur um mela og sandfitjar eða skýst á loft með hröðu vængjablaki á vaggandi, fjörlegu flugi. Á varpstað reyna sandlóur að laða óviðkomandi frá eggjum og ungum með því að barma sér ákaft. Lengd 18-20 cm, þyng 60 g, vænghaf 48-57 cm. Sandlóan er einn af einkennisfuglum Rosmhvalaness. Hún dvelur þar frá síðari hluta apríl fram í september og stöku fuglar lengur. Hún er mjög algengur varpfugl við ströndina. Á fartíma vor og haust sækja sandlóur mikið í fjörurnar, auk íslenskra varpfugla hafa hér viðdvöl fuglar á leið til og frá varpstöðvum á Grænlandi og kanadísku Íshafseyjunum.


Sendlingur

(Calidris maritima)

Lítill, hnellinn vaðfugl, dökkgrár að ofan og ljós að neðan með grágræna fætur. Goggur dökkur og lítið eitt boginn. Brúnleitari og ljósari á sumrin. Hann er mjög gæfur allt árið. Heldur sig í þéttum hópum utan varptíma og er sem ský þyrlist upp úr fjörum þegar fuglarnir hefja sig til flugs. Lengd 20-22 cm, þyngd um 80 g, vænghaf 42-46 cm. Sendlingur eru strjáll varpfugl á vestanverðu Rosmhvalanesi, örfáir tugir para verpa í lyngmóum eða á lítt grónu landi. Hann er algengur í fjörum á veturna og algengasti vaðfuglinn.


Sílamáfur

(Larus fuscus)

Meðalstór máfur, svipaður svartbaki í útliti, en er minni, fíngerðari og hlutfallslega vænglengri. Bak og vængir að ofan eru dökkgrá og ljósari en vængbroddar, en ekki svört og jafnlit vængbroddum eins og á svartbaki. Fætur eru gulir. Fuglar á fyrsta ári eru dekkri en aðrir máfar, en búningaskipti eru eins og hjá öðrum stórum máfum. Sílamáfurinn er alger farfugl einn máfa, hverfur frá landinu í oktober og kemur aftur í mars/apríl. Lengd 52-67 cm, þyngd um 800 g, vænghaf 135-155 cm. Hann er nýr landnemi hér á landi, fyrsta hreiðrið fannst á Rosmhvalanesi árið 1958. Síðan hefur honum fjölgað mikið og er hann nú algengasti máfurinn á SV- og S-landi. Langstærsta varpið á landinu er á Miðnesheiði.


Silfurmáfur

(Larus argentatus)

Stór máfur, fullorðnir fuglar eru eins og hvítmáfar (hvítir með grátt bak og vængi), nema að vængbroddar eru svartir með hvítum dílum. Goggur er gulur og fætur fölbleikir. Eins og aðrir stórir máfar, fær silfurmáfur fullorðinsbúning á fjórða ári, en þangað til er búningaskipti þeirra flókin. Þeir breytast gjarnan tvisvar á ári. Lengd 55-67 cm, þyngd um 1, 1 kg, vænghaf 138-155 cm. Nokkrir tugir para verpa á Rosmhvalanesi, aðallega innan um sílamáf á flugvellinum. Sést með öðrum máfum í fjörum og á sjó allt árið, t.d. við afrennsli fiskvinnslustöðva.


Skrofa

(Puffinus puffinus)

Meðalstór sjófugl af ætt pípunasa. Skrofan er svört að ofan og hvít að neðan með langa og mjóa vængi, rennileg og grannvaxinn og mjög góður flugfugl. Hún er skyld fýlnum og með nasirnar í pípum ofaná goggnum. Skrofur eru oftast í hópum. Þær fljúga lágt yfir haffleti og velta sér á fluginu. Á sundi minna þær á svartfugla, en eru léttsyndari. Lengd 30-38 cm, þyngd um 450g, vænghaf  76-89 cm. Skrofur sjást við Garðsskaga frá því í apríl fram í september, en eru algengastar frá maí til ágúst. Þær sjást á flugi við ströndina og oft situr hópur af skrofum á sjónum skammt útaf höfninni í Garði.


Snjótittlingur

(Plectrophenax nivalis)

Fremur lítill spörfugl. Á sumrin er karlfuglinn hvítur nema bakið er svart og er hann þá nefndur sólskríkja. Annars er fuglinn grábrúnn og dökkflikróttur, ljós að neðan en dekkri að ofan. Félagslyndur utan varptíma og er þá oft í stórum hópum. Kýs sér grýtt og lítt gróið land til varps. Lengd 16-17 cm, þyngd um 35 g, vænghaf 32-38 cm. Útbreiddur varpfugl á Rosmhvalanesi, bæði við sjávarsíðuna og í heiðinni, en verpur yfirleitt fremur dreift. Sækir heim að húsum á veturna, sérstaklega í jarðbönnum, en þeim er gjarnan gefið á hjarnið. Geta þá skipt þúsundum. Eru einnig í fjörum að vetrarlagi. Lengd 16-17 cm, þyngd um 35 g, vænghaf 32-38 cm.


Stari

(Sturnus vulgaris)

Meðalstór spörfugl, svipar nokkuð til skógarþrastar en er stélstyttri. Svartgljáandi með gulan gogg á sumrin, en doppóttur með dökkan gogg á veturna. Kvikur, fjörugur og félagslyndur fugl. Mikil „hermikráka“ og er jafnvel hægt að kenna þeim orð og setningar. Lengd 21-22 cm, þyngd 80 g, vænghaf 37-42 cm. Á Suðurnesjum urpu starar fyrst í Sandgerði um 1973 og hefur fjölgað síðan. Þeir verpa í húsum, gömlum vinnuvélum og víðar. Staðfugl, hópar sjást utan varptíma einkum í þanghrönnum í fjörum eða í byggðinni.


Steindepill

(Oenanthe oenanthe)

Fremur smávaxinn spörfugl, kvikur og fjörugur. Karlfuglinn er grár á baki, hvítur á kviði, með svarta vængi og svarta grímu. Kvenfuglinn er brúnni og dauflitari og vantar grímuna að mestu. Stélið er hvítt með svörtu ‘T’ aftast. Flýgur lágt og tyllir sér oft með rykkjum og hneigingum. Verpur m.a. í sjávarkömbum, en einnig í hlöðnum veggjum og grjótgörðum. Farfugl sem leitar til V-Afríku á veturna. Lengd 15-16 cm, þyngd um 30 g, vænghaf 25-32 cm. Steindeplar koma í lok apríl. Þeir eru allalgengir varpfuglar víða á Suðurnesjum. Síðsumars og á haustin sækja þeir í fjörurnar. Þeir yfirgefa landið í september, en sjást eitthvað fram eftir október.


Stelkur

(Tringa totanus)

Meðalstór  vaðfugl, grábrúnflikróttur á sumrin, en grárri á vetrum. Hvít vængbelti og gumpur áberandi á flugi. Goggur og fætur eru rauðir. Stelkurinn heldur sig í graslendi og votlendi á sumrin, en fjörum á fartíma og á veturna. Á varpstöðvum er hann áberandi og hávær og tillir sér gjarnan á staura og hefur hátt, ef honum finnst utanaðkomandi nálgast unga eða hreiður um of. Lengd 27-29 cm, þyngd um 140 g, vænghaf 60-66 cm. Stelkurinn er algengur varpfugl í Garði. Flestir íslenskir stelkar fara af landi brott á haustin, en talsvert er þó af stelk í fjörum á SV-landi allan veturinn. Um 60 stelkar sjást að jafnaði frá Stafnesi og út í Garð um áramót. Mikil umferð stelka er um fjörurnar á fartíma vor og haust og geta þeir þá skipt hundruðum.


Stokkönd

(Anas platyrhynchos)

Stokkönd þekkja flestir, hún er fremur stór önd, steggurinn gráleitur á búkinn, með brúna bringu og grænan haus. Kollan er brúnflikrótt. Bæði kyn með áberandi bláan og hvítbryddaðan vængspegil. Stokköndin er buslönd og hálfkafar eftir æti í vatni. Lengd 50-65 cm, þyngd 1, 1 kg, vænghaf 81-98 cm. Næstalgengasta öndin, á eftir æðarfugli. Verpur við tjarnir og sjávarsíðuna í Garði. Á veturna halda um 300 stokkendur til á strandlengjunni milli Stafness og Garðs.


Súla

(Morus bassanus)

Stór og áberandi sjófugl, fullorðin súla er að mestu hvít með svarta vængenda, ungfuglar eru fyrst aldökkir, en lýsast síðan smátt og smátt með aldrinum, fyrst á höfði, hálsi og bringu. Háttur þeirra við að afla sér fæðu er sérstakur, svonefnt súlukast, þá steypa súlurnar sér á kaf úr nokkurri hæð með aðfellda vængi. Lengd 87-100 cm, þyngd um 3 kg, vænghaf 165-180 cm. Súlur sjást við Garðsskaga frá því í febrúar fram í október, en stundum einnig um háveturinn. Stærsti varpstaður þeirra er í Eldey.


Svartbakur

(Larus marinus)

Stærsti máfurinn, svartur á baki og ofaná vængjum, annars hvítur. Goggur gulur, en fætur bleikir. Verður kynþroska fjögurra ára og hefur þá íklæðst fjölda mismundandi ungfuglabúninga. Lengd 64-78 cm, þyngd um 2 kg, vænghaf 150-165 cm. Fáein hundruð pör verpa á Rosmhvalanesi, flest við flugvöllinn, en strjálingur utan hans. Algengur við fiskivinnsluhús og víðar við ströndina allt árið. Mest er þó af honum á veturna og er hann þá algengasti máfurinn ástamt hvítmáfi. Svartbaki virðist hafa fækkað hér á landi á undanförnum árum.


Tildra

(Arenaria interpres)

Fremur lítill fjörufugl, skræpóttur og kvikur. Í sumarfiðri er tildran rauðbrún að ofan, með svartar rákir á höfði og bringu og hvít að neðan. Á veturna er hún öll grárri og litdaufari. Hvít bak- og vængbelti eru áberandi á flugi. Goggur er stuttur, svartur og fætur sömuleiðis stuttir, rauðir að lit. Tildran dregur nafn sitt af því háttalagi, að velta við steinum og þangi í fjörunni í leit að æti. Umferðarfarfugl, varpfuglar á Grænlandi og NA-Kanada hafa hér viðdvöl vor og haust á leið sinni til og frá varpstöðvunum og vetrarstöðvum í V-Evrópu. Lengd 22-24 cm, þyngd um 120 g, vænghaf 50-57 cm. Einn algengasti vaðfuglinn í fjörunum, stærstu hóparnir sjást á vorin. Yfir háveturinn er mergðin mismikil, frá nokkrum tugum fugla uppí á 2. þúsund á strandlengjunni Stafnes – Garður.
 


Tjaldur

(Haematopus ostralegus)

Stór og áberandi vaðfugl. Svartur að ofan og hvítur að neðan með langan rauðan gogg og bleika fætur. Oftast hávær, sérstaklega á varpstöðvum. Lengd 40-45 cm, þyngd um 600 g, vænghaf 80-86 cm. Einkennisvaðfugl Suðurnesja. Verpur þétt með allri ströndinni, hreiðrið er opið, oftast í sandi eða möl og að klaki loknu sækir hann með ungana í fjöruna. Sést einnig á túnum og í görðum. Að mestu farfugl, meirihlutinn heldur til Bretlandseyja á haustin, en slæðingur sést á veturna í fjörum.


Toppönd

(Mergus serrator)

Mjósleginn og rennileg fiskiönd, fremur stór, með langan, mjóan gogg. Steggurinn er skrautlegur, grænn á höfði, dökkur á baki, grár á síðum, hvítur á hálsi og brúndröfnóttur á bringu. Kollan er gráleit á búk með brúnleitt höfuð. Bæði kyn með stríðan topp aftan úr hnakka og hvíta vængreiti sem eru áberandi á flugi. Afburða kafari eins og lögun fuglsins ber með sér. Lengd 52-58 cm, þyngd um 1, 1 kg, vænghaf  70-86 cm. Varpfugl í Garði og víðar á Rosmhvalanesi, kollur með unga sjást bæði á tjörnum og sjó. Þær halda til á tjörnunum þangað til að þær leggur. Fáeinir tugir sjást síðan meðfram ströndinni allan veturinn.


Æðarfugl

(Somateria mollissima)

Stór kafönd sem heldur sig nær eingöngu á eða við sjó. Blikinn er skrautlegur, hvítur og svartur, kollan er brúnflikrótt með sérkennilegt höfuðlag. Ungir blikar eru dökkir með hvíta bringu. Biðilslátbragð blikanna á vorin er afar sérkennilegt, þeir reigja sig og teygja og „úúa“ mikið. Lengd 50-71 cm, þyngd um 2 kg, vænghaf 80-108 cm. Æðurin er algengur staðfugl við Garðsskaga og algengasti fuglinn við Rosmhvalanes á veturna, tæplega 8000 fuglar hafa sést í fuglatalningum um áramót á svæðinu Stafnes – Garður. Þegar loðnan gengur meðfram SV-landi á útmánuðum fjölgar fuglunum að mun og eru mjög stórir hópar þá útaf Garðsskaga, skipta jafnvel tugum þúsunda. Í þessum stóru hópum má gjarnan sjá æðarkónga, skrautlega ættingja æðarfuglsins sem koma frá Grænlandi.


Þúfutittlingur

(Anthus pratensis)

Lítill og einkennasnauður spörfugl, en einn af okkar bestu söngfuglum og syngur á flugi. Hann er að mestu brúngulur, ljósari að neðan, bringan rákótt. Stélið er fremur langt, með hvítum jöðrum. Goggurinn fínlegur. Þúfutittlingur er einn algengasti og útbreiddasti mófugl landsins. Lengd 14-15 cm, þyngd um 17 g, vænghaf 22-25 cm. Þúfutittlingur kemur uppúr miðjum apríl og leitar þá oftast beint á varpstöðvarnar. Hann er útbreiddur í Garði og um allt Rosmhvalanes. Síðsumars og á haustin er þúfutittlingurinn í hópum í fjörum, en einnig í mýrlendi og víðar. Þeir eru að mestu farnir í lok september, en slæðingur sést þó fram yfir miðjan október.


Fuglaflokkar

Sjófuglar Útaf Garðsskaga, í Garðssjó, eru straumaskil og þar er ávalt mikið af sjófuglum, bæði á flugi með ströndinni á leið inn eða út úr Faxaflóa, einnig í ætisleit útifyrir ströndinni.   Þetta er einn besti staðurinn til að skoða marga sjófugla, t.d. sjást skrofur allt sumarið og stormsvölur og gráskrofur sjást síðsumars. 

Umferðarfuglar/ fartími.  Mikil umferð farfugla er um Garðsskaga og koma farfuglar þar oft fyrst að landi.  Það er þó háð vindáttum hverju sinni, hvernig umferð fugla er háttað.  Vaðfuglar hafa viðdvöl í fjörum og sækja m.a. í þanghrannir, sumir á leið milli vetrarstöðva í Evrópu og Afríku og varpstöðva á Grænlandi og Íshafseyjum Kanada.  Talsverð umferð gæsa er um Garðsskaga, þó þær stansi venjulega stutt eða fljúgi aðeins framhjá.   Meðal sjaldséðari en reglulegra umferðarfugla má nefna smyril, ískjóa og sportittling.

Varpfuglar Allfjölbreytt fuglalíf er í Garði og um Suðurnesin.  Kría og æðarfugl eru algengustu varpfuglarnir, en margir mófuglar og endur verpa í kjörlendi við hæfi þar sem það er að finna.  Nokkur fuglabjörg eru á Reykjanesskaga, þau helstu eru Hólmsberg, Hafnaberg, Eldey og Krísuvíkurberg.

Vetrarfuglar Sjórinn við Suðurnes er hlýjasti sjór landsins og því eru grunnsævi og fjörur jafnan fullar af fuglum á veturna.   Æðarfugl er algengastur, en skarfar, máfar, stokkönd, hávella, nokkrir vaðfuglar og snjótittlingur eru einnig tíðir vetrargestir.  

Hrakningsfuglar Mikið af sjaldgæfum hraknings- eða flækingsfuglum hafa sést á og nærri Garðsskaga.  Þar taka fuglar, sem hrekjast vestan um haf, frá N-Ameríku, oft fyrst land.  Árlega bætast fáeinar nýjar tegundir við íslenska fuglalistann og hafa þær stundum sést á Garðsskaga.  Sem dæmi má nefna stepputrítil, vaðlatítu og grímuskríkju.

Previous articleSefhæna – Common Moorhen
Next articleSkoruvíkurbjarg á Langanesi