05. nóv. 2014 – 18:30

Á síðustu áratugum hafa allnokkrar nýjar fuglategundir komið og numið land á Íslandi. Þessar tegundir hafa verið af ýmsum stærðum og gerðum en flestar náð fótfestu vegna hlýnandi loftlags og aukinnar skógræktar. Orðið „smáfuglar“ er almennt notað sem samheiti yfir smávaxna spörfugla og einn nýju landnemanna telst klárlega vera smáfugl. Hann er minnsti fugl í Evrópu og vegur aðeins 5-7 grömm. Fuglinn sem um ræðir heitir glókollur og hefur hann náð fótfestu í greniskógum um allt land.

Glókollar eru útbreiddir um Evrópu og hafa flækst til landsins um langt skeið. Fyrsta staðfesta tilvikið um veru glókolls á Íslandi er frá Húsavík í október 1920. Þeir hafa ekki verið mjög algengir sem flækingar og samkvæmt skýrslum um sjaldgæfa fugla voru einungis skráð rúmlega 60 tilvik fram til ársins 1980. En árið 1996 gerðist nokkuð merkilegt. Hingað til lands flæktist mikill fjöldi glókolla sem varð til þess að sumir þeirra ílendust í greniskógum. Þar lifðu þeir af yfir íslenska veturinn með því að háma í sig sitkalýs sem sitja á greninálunum. Upp frá þessu fóru glókollar að verpa á Íslandi og hefur stofninn vaxið og dafnað vel.

Það vekur undrun og aðdáun að fugl sem vegur aðeins 5-7 grömm skuli geta flogið frá Evrópu til Íslands. Harka og seigla tegundarinnar kristallast síðan í því að lifa af hina köldu og dimmu íslensku vetur. Til að setja þyngd fuglsins í samhengi við eitthvað sem við þekkjum þá greip ég það sem hendi var næst – Extra tyggjó – og vigtaði það nákvæmlega. Þegar 4 stök tyggjó voru komin á vogina sýndi hún rúm 5,8 grömm sem ætti að vera nærri meðalþyng glókolls. Ég hvet alla til að raða 4-5 Extra tyggjóum í lófann og finna hversu mikið kríli þessi stórmerkilegi fugl er.

Glókollurinn nefnist „fuglakóngur“ á mörgum Norðurlandamálum. Svo virðist sem skaparanum hafi sýnst tilhlýðilegt að kóróna þessa smáu afurð með því að krýna hana. Glókollurinn hefur semsagt einkennandi gula kórónu á kollinum. Karlfuglarnir hafa auk þess appelsínugular fjaðrir á milli þeirra gulu sem auka enn fremur á tignarleika kórónunnar.

Skemmtilegt er að fylgjast með glókollum þegar gengið er um skógarlundi. Maður verður þeirra venjulega fyrst var vegna hljóðanna. Þeir gefa frá sér einkennilegt tíst, sem er á mjög hárri tíðni, og fyrir kemur að fólk sem komið er nokkuð á aldur nemi ekki hljóðin. Fuglarnir skjótast á milli greina og tína smádýr af greninálum og af berki trjánna. Þeir andæfa gjarnan við ystu greinarnar og minna þá nokkuð á kólibrífugla. Erfitt getur verið að koma auga á hreiður þeirra en þau eru mosavafin kúla sem hangir neðan á grenigreinum. Finni menn slík hreiður þá ber að varast að eiga við þau því veikbyggðari fuglabústaðir eru torfundnir.

Landnámssaga glókollsins er dæmi um hversu miklu máli búsvæði skipta fyrir tegundir. Glókollurinn þarf greni til að lifa af hérlendis og áður en þau voru til staðar þá gátu þeir fuglar sem hingað komu ekki haldið sér á lífi. Að sama skapi þá eru skóglaus svæði mikilvæg búsvæði annarra tegunda sem ekki geta þrifist í skóglendi. Umfang og gerð skógræktar þarf því að skoða vel þannig að tryggja megi að ekki verði gengið á mikilvægar bersvæðistegundir þó svo að glókollurinn og aðrar framtíðar skógarfuglategundir muni njóta góðs af.

Ljósmyndarinn Sigmundur Ásgeirsson náði með lagni að smella þessari mynd af glókolli á ferð og flugi um grenigreinar.

Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og dósent í dýrafræði við HÍ. Allar athugasemdir og ábendingar vel þegnar á gunnih@hi.is

Previous articleÍslenski hellisbúinn
Next articleFuglarnir elska matarafganga