Íslenski hellisbúinn
Fugl vikunnar er einhver albesti söngfugl sem Íslendingar eiga. Hann heitir músarrindill og hefur löngum verið þekktur sem minnsti íslenski fuglinn. Hann missti hins vegar þá stöðu með landnámi glókollsins sem við fjölluðum um fyrir skömmu.
En það er margt skemmtilegt og heillandi við músarrindilinn. Náttúruunnendur á vappi um skóg- og kjarrlendi verða hans varir þegar hann hefur upp raust sína. Það er með ólíkindum hversu mikil og falleg dillandi hljóð geta komið frá þessum litla 17 gramma skrokki. Sé leiðrétt fyrir líkamsstærð þá er söngstyrkurinn um 10-falt hærri en hanagal. En þó menn heyri vel í músarrindlinum þegar hann syngur þá er ekki eins auðvelt að koma auga á hann. Sá litli getur verið mjög laumulegur, heldur gjarnan til inn á milli greina, hoppar niður á jörð og smýgur inn í glufur þar sem þær er að finna. Stundum er hreinlega eins og músarrindlar gufi upp þegar maður er að fylgjast með þeim.
Fyrir þetta laumulega háttarlag hefur músarrindillinn verið talinn skyldur músum og er gjarnan nefndur músarbróðir. Í íslenskri þjóðtrú er ýmislegt sem tengist músarrindlum og þeirra háttum. Líkt og mýs þá áttu músarrindlar að vera sólgnir í hangikjöt og óðu jafnvel reyk í skorsteinum til að komast í girnileg sauðalæri. Með krossmarki á skorsteinum mátti þó stöðva þá, enda töldu sumir hann óheillafugl. Sögur segja að sá sem þvær sér um augun úr volgu músarrindilsblóði öðlist nætursýn. Nú og fyrir þá sem vilja lesa hugsanir þá var trúin sú að vefja þurrkað músarrindilshjarta í klæði og geyma það laumulega í hægri hönd á meðan hugsanir viðmælandans voru lesnar.
Sigmundur Ásgeirsson tók þessa mynd af músarrindli sem var að laumast í grenilundi á Suðurnesjunum.
Frægustu sögurnar um músarrindla víða um heim snúa að keppni á meðal fuglanna um hver þeirra flýgur hæst. Þar á músarrindillinn af hafa beitt klækjum og falið sig í ham arnarins og þegar örninn hafði flogið hæst allra fugla og orðinn örþreyttur þá á rindillinn að hafa skotist ferskur út og náð að fljúga enn hærra. Fyrir þetta uppátæki hafi hann fengið bágt fyrir og þurft að fara laumulega æ síðan. Íslenskar sögur herma að örninn hræðist aðeins einn fugl og það sé músarrindillinn því þegar örninn hefur sig til flugs og rembist við að hækka flugið þá þenst þarfagangur hans út og rindillinn getur smogið þar inn og rakið úr honum garnirnar.
Músarrindillinn (til hægri) var um langt skeið minnsti fugl á Íslandi þangað til glókollurinn (til vinstri) nam hér land um aldamótin síðustu. Báðir eru þeir agnarsmáir eins og sjá má. Ljósm.: Harpa Jónsdóttir
Ekki þarf skemmtilegar sögur og þjóðtrú til að vekja áhuga á músarrindlum því lífshættir þeirra í raunveruleikanum eru mjög áhugaverðir. Á vorin syngja karlfuglarnir til sín kvenfugla með óviðjafnanlegum söng sínum. Eins og sönnum karldýrum sæmir þá láta þeir ekki bara sönghæfileika sína í ljós heldur byggja allt að 12 haganlega vafin kúluhús úr stráum. Þeir gefa áhugasömum kvenfuglum kost á að skoða þessi hús en þær velja síðan það sem þeim líst best á. Þá er hafist handa við að fóðra heimilið með mosa og einhverju mjúku eins og t.d. fiðri. Karlfuglinn tekur ekki þátt í álegunni og getur því haft fleiri en einn kvenfugl í takinu í einu.
Músarrindlar eru dæmi um skammlífa tegund með mikla frjósemi. Þeir geta framleitt mikið af ungviði því kvenfuglarnir verpa 6-8 eggjum í hreiður sitt og eru snöggir að unga út og koma ungunum á flug svo að þeir geta endurtekið leikinn aftur innan sama sumars.
Svangir músarrindilsungar biðja um mat með því að opna gogginn og láta vængina skjálfa. Umgjörðin um goggvikin er þykk og gul þannig að ekki fer á milli mála hvert á að setja gómsætar lirfur og annað góðgæti. Ljósm.: Jónína G. Óskarsdóttir.
Þegar kólnar að haustinu færa margir fuglanna sig til sjávar og halda gjarnan til í grjótvarnargörðum. Þeir vilja alls ekki vera í hópum og helga sér einskonar yfirráðasvæði í fjörunum sem þeir verja fyrir öðrum músarrindlum. Stundum má sjá þá slást á mörkum slíkra svæða. En ef mjög kalt er í veðri þá safnast músarrindlar stundum saman yfir nóttina og liggja þétt upp við hvorn annan til að halda á sér hita. Þeir velja sér holur fyrir þessar samkomur og víða erlendis er algengt að þeir noti manngerð fuglavarphús til að safnast saman í. Vitað er til þess að allt að 60 músarrindlar hafi þjappað sér saman í slík fuglahús til að eiga hlýja nótt saman.Íslenskir músarrindlar eru algerir staðfuglar og hafa í aldanna rás aðgreinst útlitslega og erfðafræðilega frá öðrum stofnum músarrindla. Þeir eru skilgreindir sem sérstök undirtegund sem ber fræðiheitið Troglodytes troglodytes islandicus. Latneska heitið gæti útlagst sem „íslenski hellisbúinn“. Þeir eru stærri og dekkri en aðrir músarrindlar og við Íslendingar megum að vera meðvitaðir og stoltir af þessum sérstaka stofni í fuglafánu landsins.
Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og dósent í dýrafræði við HÍ. Allar athugasemdir og ábendingar vel þegnar á gunnih@hi.is