18. des. 2014 – 18:30 Pressan.is

Jólin nálgast óðfluga og úti geisa válind veður. Ef snjóar og frosthörkur vara í einhvern tíma þá þrengir mjög að matarkistum sumra fuglategunda, sérstaklega spörfuglanna. Þá sækja þeir stíft að mannabústöðum í von um að finna eitthvað gott í gogginn. Það er því við hæfi að fara aðeins yfir það hvaða tegundir þetta eru og hverslags kræsingar við ættum að bjóða þeim uppá yfir hátíðarnar.

Þegar við hefjumst handa við að gefa garðfuglunum þá þarf fyrst af öllu að velja öruggan stað. Það fer aðeins eftir tegundum hvernig umhverfi þeim finnst hentugast. Almennt vilja fuglarnir svæði sem eru ekki mjög aðþrengd þannig að þeir verði þess snemma varir ef afræningja ber að garði. Kettir eru helsta ógnin við garðfugla hérlendis og því brýnt að bjóða fuglunum ekki til veislu nærri hentugum felustöðum fyrir kisa. Annað sem oft gleymist við fóðrun smáfugla er að gefa fuglunum vatn ef frost eru langvinn.

Íslendingar hafa fóðrað snjótittlinga lengur en aðra smáfugla. Kurlaður maís hefur verið hið staðlaða fuglafóður um áratugaskeið. Snjótittlingar éta maísinn af bestu lyst en flestar aðrar tegundir fúlsa við honum. Snjótittlingar eru fyrst og fremst fræætur yfir vetrartímann og éta alls kyns frægerðir sé þeim boðið upp á þær. Þeir koma í hópum niður í ætið og fljúga síðan upp á næstu húsþök ef þeir verða fyrir styggð. Best er því að velja opin svæði þaðan sem er auðvelt að fljúga beint upp í loftið. Dæmi um góða staði gætu verið miðjar flatir í stórum görðum, bílskúrsþök og svalahandrið.

Snjótittlingar koma í hópum á opin svæði og éta m.a. kurlaðan maís. Ljósm.: Örn Óskarsson

Auðnutittlingar eru fræætur líkt og snjótittlingarnir. Þeir eru þó ekki hrifnir af kurlaða maísinum en þeim mun sólgnari í smá fræ, t.d. páfagaukafóður, og einnig sólblómafræ. Einnig sækja þeir í svokallaðar fitukúlur sem eru til sölu í nokkrum verslunum hérlendis. Kúlurnar eru gerðar úr fitu og korni og umvafðar neti. Auðnutittlingar kunna best við sig í trjám þannig að vilji menn laða þá að görðum sínum er tilvalið að hengja upp slíkar kúlur og einnig frædalla. Séu borin út fræ má jafnvel búast við að sjá sjaldséðar finkutegundir eins og fjallafinku og bókfinku.

Auðnutittlingar kunna best við sig í trjágróðri og gott að hengja upp æti fyrir þá. Ljósm.: Kristinn Vilhelmsson

Þrestir og starar eru lítt gefnir fyrir fræ en éta þau ef þeir eru svangir. Þeirra uppáhalds æti yfir veturinn er brauð- og feitmeti og ávextir. Þeir sækja mjög í kjötsag, mör, franskar kartöflur, rúsínur, epli og perur. Þeir éta einnig brauð en þá er tilvalið að blanda saman við það matarolíu. Einnig er hægt að útbúa hina sívinsælu smjörbrauðsköku með því að bræða smjör, blanda saman við það brauðmylsnum og láta storkna í formi. Best er að gefa þröstum og störum á fóðurbretti eða á nokkuð opnum svæðum með auðvelda flóttaleið. Ávextina er gott að skera í tvennt og festa utarlega á burðugar trjágreinar.

Skógarþrestir eru hrifnir af feitmeti og ávöxtum t.d. eplum og perum. Ljósm.: Eyjólfur Vilbergsson

Sé lagt á borð fyrir þresti og stara má einnig búast við að ætið laði að sér fremur sjaldséðar tegundir eins og gráþröst, silkitoppu, hettusöngvara og glóbrysting. Gráþrestirnir geta verið mjög frekir og rekið aðra fugla frá gjafastaðnum. Silkitoppurnar eru með allra fallegustu spörfuglum og sækja mjög í alls kyns ber og ávexti,

Silkitoppur eru fremur sjaldséðar en sækja sérstaklega í garða þar sem þær finna ávexti. Ljósm.: Björgvin Sigurbergsson

Séu fuglafóðrarar svo heppnir að fá smávaxnar tegundir eins og hettusöngvara eða glóbrysting í heimsókn þá má gera þeim lífið auðveldara með því að minnka samkeppnina við hina garðfuglana. Glóbrystingar éta brauð- og feitmeti og stunda þá iðju gjarnan á jörðinni undir þéttum runnum. Með því að gefa þeim þar má auðvelda þeim aðgengið að kræsingunum. Hettusöngvarar eru fyrst og fremst skordýraætur og leita sér ætis í trjám. Þeir flækjast til landsins á haustin og þrauka ekki veturinn án fóðurgjafa frá manninum. Þeir éta kjötsag og mör en fara einnig í ávexti. Hægt er að smyrja fitu og sagi á grannar trjágreinar og þá standa hettusöngvararnir betur að vígi en hinar tegundirnar.

Hettusöngvari að gæða sér á epli. Þessi flækingsfugl lifir ekki íslenskan vetur nema komast í fóðurgjafir. Ljósm.: Sigmundur Ásgeirsson

Að fóðra garðfugla yfir vetrartímann er göfugt verkefni sem auðveldar þessum litlu vinum okkar lífið og gefur fólki kost á því að kynnast fuglunum betur og í nálægð. Sé fuglunum gefið reglulega fara þeir að treysta á ætið og verða þaulsetnari. Séu gjafastaðirnir öruggir verða fuglarnir sífellt gæfari og sumar tegundir læra að treysta þeim sem gefur. Auðnutittlingar eru þar í sérflokki og með tíð og tíma má jafnvel komast svo langt að gefa þeim úr lófanum.

Örn Óskarsson gefur auðnutittlingi fræ úr lófa sínum. Sé fuglum gefið reglulega læra þeir smám saman að treysta á fóðurgjafir og verða þaulsetnari í görðunum. Ljósm.: Örn Óskarsson

Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og dósent í dýrafræði við HÍ. Allar athugasemdir og ábendingar vel þegnar á gunnih@hi.is

Previous articleFjöruspói-Sjaldgæfasti varpfugl landsins?
Next articleÍslenski hellisbúinn