26. nóv. 2014 – 19:10 Pressan.is

Spóinn er landanum vel kunnur, kemur sem vorboði ár hvert á eftir lóunni. Íslenski spóinn er algengur um allt land en kann illa við sig í kulda og hreti og fer því til V-Afríku á veturna. Þar skiptir hann um líferni og hleypur m.a. um á eftir fiðlukröbbum og situr í trjám leiruviðarskóga.En spóinn á sér nokkra náskylda ættingja. Einn þeirra er hinn stórvaxni fjöruspói sem áður gekk undir heitinu stóri spói. Hans er getið í heimildum um fugla á Íslandi frá síðustu og þarsíðustu öld og þá jafnan í fjörum yfir vetrartímann. Fjöruspóar hafa því um langt skeið verið skilgreindir sem vetrargestir á Íslandi og talið hefur verið að varpstöðvar þeirra séu í einhversstaðar í N-Evrópu, enda tegundina ekki að finna í Vesturheimi.

Þó svo að fjöruspóar hafi verið þekktir hér að vetrinum um langt skeið þá hefur fjöldinn ekki verið mikill, aðeins 50-100 fuglar. Mest hefur borið á þeim á SA-landi og á Reykjanesskaga. Á síðustu áratugum virðist sem fuglunum hafi fækkað án augljósra skýringa. Það sem veldur nokkrum ugg er að uppruni þessara fugla er óþekktur og þeir gætu verið íslenskir varpfuglar.

Fjöruspóinn þekkist á mjög löngum goggi og fremur atkvæðalausu mynstri á höfði. Ljósm.: Eyjólfur Vilbergsson.

Það er næg innistæða fyrir því að gefa þessum möguleika gaum því fjöruspóar hafa nú þegar fundist verpandi á Íslandi. Fyrsta staðfesta tilvikið var á Melrakkasléttu árið 1987. Síðan þá hafa fjöruspóar fundist verpandi í Reykhólasveit og í A-Skaftafellssýslu. Ekki er vitað hvort vörp á þessum stöðum séu einangruð tilvik eða hvort vetrarstofninn sem hér dvelur sé meira eða minna íslenskur og varpfuglarnir þá ófundnir. Sé það tilfellið, þá gerir það fjöruspóann að einum sjaldgæfasta varpfugli á Íslandi.

Eitt af því sem torveldar söfnun upplýsinga um fjöruspóa er hversu mikið þeim svipar til spóans okkar. Jafnvel reyndir fuglaskoðarar geta átt í erfiðleikum með að þekkja þá frá spóum á löngu færi. Sé komist í návígi er þó greinilegt að fjöruspóar eru stærri en spóar og hafa mun lengri og bognari gogg. Auk þess hefur spóinn dökkbrúnar langrákir á kolli og dökka rák í gegnum augað sem gefur honum skarpt andlitsmynstur. Fjöruspóinn er einsleitari í framan en fær krúttlega ásjónu vegna þess að hann hefur ljósan hring um dökkt augað. Hið landskunna „vell“ spóans greinir hann örugglega frá stóra frænda sínum sem „vælir“ þess í stað.

Spóinn hefur áberandi dökkar rákir á kollhliðum og er búkminni og goggstyttri en fjöruspóinn. Ljósm.: Sigmundur Ásgeirsson.

Megin markmiðið með fuglapistli vikunnar er að vekja athygli á muninum á fjöruspóa og spóa og þar með auka líkurnar á að þeir finnist verpandi. Slík vitneskja er nauðsynleg svo hægt sé að stuðla betur að vernd þeirra fugla sem hér dvelja – séu þeir íslenskir. Einnig vil ég vekja athygli á þeirri fækkun sem virðist hafa átt sér stað á meðal fjöruspóa að vetrarlagi. Fuglarnir sækja mikið til á sömu svæðin ár eftir ár og passa verður sérstaklega að raska þeim ekki.

Erlendis dvelja fjöruspóar gjarnan á stórum leirusvæðum við árósa yfir vetrartímann. Þar ganga þeir um og stinga löngum goggnum á kaf í mjúkt setið og pikka upp burstaorma og annað góðgæti. Hérlendis hefur fæðuval fjöruspóa ekki verið kannað sérstaklega en athyglivert er að sjá hegðun þeirra í fjörunum við Sandgerði, einum af þeirra uppáhalds stöðum hérlendis. Þar matast þeir lang oftast í stórgrýttum þangfjörum og pikka upp snigla, marflær og önnur krabbadýr. Ef við gætum skilið betur við hvaða aðstæður þeir þrífast best þá yrði búsvæðavernd þeirra auðveldari.

Verði lesendur fjöruspóa varir þá væri vel þegið að heyra af því.

Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og dósent í dýrafræði við HÍ. Athugasemdir og ábendingar vel þegnar á gunnih@hi.is

Previous articleSkúmsöngvari hér í fyrsta skipti
Next articleHátíðarréttir garðfuglanna: Myndir