Grálóa er al­geng­ur flæk­ing­ur og var áður nefnd strand­lóa. mbl.is/​Guðmund­ur Falk
www.mbl.is | Inn­lent | Morg­un­blaðið | 1.3.2017 | 19:30  

Fugla­lífið á Sand­gerðis­leirunni hef­ur verið líf­legt í vet­ur. Guðmund­ur Falk, fugla­ljós­mynd­ari í Sand­gerði, fór að fást við fugla­ljós­mynd­un fyr­ir um þrem­ur árum. Það er eng­inn skort­ur á mynd­efn­um í Sand­gerði.

„Ég er bú­inn að fara hratt upp teg­undal­ist­ann og er kom­inn í 158 fugla­teg­und­ir,“ sagði Guðmund­ur. „Ég stefni á að fara í 180 fugla­teg­und­ir í vor. Það er rosa­lega stórt stökk. Í fyrra bætti ég 27 teg­und­um á list­ann. Frí­tím­inn minn fer í þetta.“

Morg­un­blaðið birti í gær mynd Guðmund­ar af heiðlóum sem halda sig á leirunni og hafa þar nóg að éta. Á sunnu­dag­inn var voru þar tíu heiðlóur að spóka sig.

Fá­gæt hjálmönd á flakki

Hjálmönd kem­ur frá Norður-Am­er­íku og er sjóönd. Ljós­mynd/​Guðmund­ur Falk

„Fyr­ir utan þess­ar heiðlóur þá eru hér tvær gráló­ur, sem telj­ast vera flæk­ing­ar, en hafa verið hér frá því snemma í haust,“ sagði Guðmund­ur.

Hjálmönd hef­ur líka haldið sig í Sand­gerði í vet­ur. Um er að ræða norður­am­er­íska og afar smá­gerða and­ar­teg­und. Þetta er í fimmta skipti sem þessi teg­und sést hér á landi, að sögn Guðmund­ar.

„Ég fann þessa önd fyrst­ur manna á Sand­gerðistjörn 9. nóv­em­ber í haust,“ sagði Guðmund­ur. Hann seg­ir að hjálmönd­in flakki á milli tjarna og hafi skroppið út í Garð og suður á Staf­nes. Þá setj­ist hún á sjó­inn þegar tjarn­irn­ar leggi. Nokkr­ir fjöru­spó­ar hafa haft vet­ur­setu á Sand­gerðis­leirunni. Guðmund­ur seg­ir að senni­lega sé fjöru­spó­inn einn af nýj­ustu varp­fugl­um lands­ins. Menn gruni að upp sé að vaxa ís­lensk­ur fjöru­spóa­stofn.

Fjöru­spói er vetr­ar­gest­ur hér á landi og hafa nokkr­ir verið í Sand­gerði í vet­ur. Hann hef­ur einnig orpið hér. Ljós­mynd/​Guðmund­ur Falk

Hann seg­ir að nú sé að koma skemmti­leg­ur árs­tími þegar vorið nálg­ast í Evr­ópu og Norður-Am­er­íku. Þá fara far­fugl­arn­ir á kreik og hingað geta komið flæk­ing­ar yfir hafið, jafnt úr austri og vestri eft­ir því sem vind­ar blása.

„Maður er alltaf að von­ast til að finna nýja fugla­teg­und fyr­ir Ísland eða Evr­ópu. Spenn­an sem fylg­ir fugla­skoðun ger­ir hana svo ein­stak­lega skemmti­lega tóm­stundaiðju,“ sagði Guðmund­ur.

Previous articleSjaldgæfur flækingur í klóm kattar
Next articleÞrjár nýj­ar teg­und­ir sáust í Heiðmörk