Margæsir eru árvissir gestir hér á landi. mbl.is/Rax
www.mbl.is | Innlent | mbl | 2.1.2017 | 18:30
Þrjár nýjar fuglategundir sáust í Heiðmörk á nýliðnu ári. Þetta segir í tilkynningu frá Veitum, en frá árinu 1998 hefur verið tekið saman yfirlit tegunda og fjölda þeirra fugla og spendýra sem sjást á brunnsvæðum Veitna í Heiðmörk og nágrenni þeirra.
Hafsteinn Björgvinsson, umsjónarmaður vatnsverndarsvæðanna hefur ritað skýrslu um fugla og önnur dýr á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla Reykjavíkur, en hana prýðir fjöldi mynda af þessu dýraríki í nágrenni Reykjavíkur.
Eins og áður sagði sáust þrjár nýjar tegundir á liðnu ári.
„Gjóður (Pandion haliaetus) sást við Elliðavatn í septemberlok og er talið líklegast að um amerískan flæking sé að ræða. Í október varð Bjarthegra (Egretta garzetta) vart við vatnið en hegrarnir eru evrópskir flækingar sem stundum sjást hér á landi á haustin. Á svipuðum tíma dvaldi margæs (Branta bernicla) við Hraunhústjörn. Margæsir hafa viðdvöl á Íslandi á leið sinni til og frá Íslandi til Grænlands og Kanada þar sem þær verpa.“
Skýrslan er sú 21. í röðinni en að því er fram kemur í tilkynningunni hafa orðið talsverðar breytingar á dýralífinu á þessum árum. Nýjar tegundir hafa þá tekið upp reglulega viðdvöl, aðrar hafa fært sig til eða jafnvel horfið af vatnsverndarsvæðinu.