8. september 2012 03:30 – www.visir.is
Kjalbeinið á dúfunni stendur út í loftið, sem er til merkis um að hún sé ekki vel á sig komin. Mynd/óskar P. Friðriksson

„Þetta er sárasjaldgæft kvikindi,“ segir Erpur Snær Hansen fuglafræðingur um tregadúfu sem með naumindum lifði af að lenda í klóm kattar í Vestmannaeyjum í gær.

Tregadúfur, litlir fuglar sem þekkjast á spísslaga stéli og blágrænum hring í kringum augun, eru mjög algengar í Bandaríkjunum. Slík dúfa hefur þó aðeins einu sinni borist til Íslands, árið 1996 til Vestmannaeyja, og ekki nema um fimm dæmi eru um að þær hafi sést í gjörvallri Evrópu, að sögn Erps.

„Hún er ansi rýr greyið, ekki nema 69 grömm þegar þær eiga að vera 120 grömm. Hún hefur verið orðin aðframkomin af hungri eftir flugið yfir Atlantshafið,“ segir hann. Hún hafi meira að segja verið farin að brenna flugvöðvunum.

Erpur segir að dúfan hljóti að hafa lent í miklum fellibyl við austurströnd Bandaríkjanna – jafnvel Ísak sem var í fréttum í vikunni. Hún hafi lítið átt í köttinn, sem hafi skemmt á henni fiðrið áður en henni var bjargað úr klóm hans.

„Hún er þokkalega ern miðað við það sem á undan er gengið en það er samt spurning hvort hún lifir. Það er verið að reyna að gefa henni að éta og ef það tekst þá verður henni sleppt,“ segir Erpur. – sh

 

Previous articleFundu tvo andarunga í maga urriða
Next articleFiðraðir gest­ir í Sand­gerði