1 Þáttur
Þann 3 maí 2023 var frumfluttur á RÚV útvarpsþáttur um fuglaskoðun.
Í þættinum ræðir Sunna Valgerðardóttir við Daníel Bergmann, fugla- og náttúruljósmyndara, leiðsögumann og áhugamann um fugla en hann er vel þekkt nafn á meðal fuglaáhugafólks á Íslandi og hefur meðal annars gefið út bók um fálkann.
Um 75 fuglategundir verpa á Íslandi en örfáir metnaðarfullir skoðarar hafa náð að sjá margfalt fleiri tegundir. Í heildina hafa sést 410 fuglategundir á Íslandi. Fuglaskoðarasamfélagið hefur vaxið mikið undanfarna tvö áratugi, bæði með tilkomu snjallsímanna og svo auknum almennum áhuga á útivist og náttúrunni. Það eru meira að segja til ákveðin hugtök sem bara fuglaskoðarar skilja, eins og að vera tvittsari og dippari. Sunna Valgerðardóttir ræðir við Daníel Bergmann, fugla- og náttúruljósmyndara, leiðsögumann og áhugamann um fugla, í þessum fyrri þætti af tveimur um sjaldgæfa fugla á Íslandi og skoðara þeirra.
Hér er tengill á þáttinn á RÚV
Ef tengillinn á vefsíðu RÚV virkar ekki þá getur þú hlustað á þáttinn hér fyrir neðan.
2 Þáttur
Í öðrum þætti sem var frumfluttur 4 maí 2023 er rætt við Alex Mána Guðríðarson en hann er einn af þekktustu fuglaskoðurum landsins og búinn að vera í bransanum frá 6 ára aldri, hann situr í flækingsfuglanefndinni ásamt því að vera í stjórn ebird á Íslandi.
Fuglaskoðun hefur verið viðurkennt áhugamál mjög lengi. Og eins og viðmælandi síðasta þáttar, ljósmyndarinn og fuglaskoðarinn Daníel Bergmann, benti á þá hafa flestir að minnsta kosti smávegis áhuga á fuglum. Alex Máni Guðríðarson, viðmælandi þáttarins í dag, segir að alvöru fuglaskoðun geti dansað á línunni mitt á milli áhugamáls og þráhyggju. Hann var lengi yngsti félagi Club 200, býr á Stokkseyri og byrjaði að skoða fugla sex ára gamall. Hann náði mynd af næturgala í garðinum hjá sér um daginn og Flóaskríkja er uppáhaldið hans. Sunna Valgerðardóttir ræðir við Alex í þessum síðari þætti um fuglaskoðarana á Íslandi og ástríðu þeirra: Sjaldgæfa flækingsfugla, skráningu þeirra og samfélagið sem fylgir þeim.
Hér er tengill á þáttinn á RÚV
Ef tengillinn á vefsíðu RÚV virkar ekki þá getur þú hlustað á þáttinn hér fyrir neðan.