Það er þekkt að gæsir af sitthvorri tegundinni pari sig saman þó að það sé frekar sjaldgæft, og enn sjaldgæfara er að verða vitni að slíkri pörun. Til að toppa þetta allt saman þá er líka hægt að fylgst með daglegu lífi þessara einstöku gæsa því að þær búa í þéttbýli okkar mannfólksins. En á Álftanesi hafa parað sig saman tvær ólíkar tegundir gæsa, helsingi og grágæs.

Þessar gæsir hafa haldið sig að mestu við Jörfaveg og nágrenni hans. Þær hafa vakið mikla athygli hjá vegfarendum sem eiga leið um veginn, enda eru þetta tvær mjög svo ólíkar gæsategundir í útliti og það er frekar furðulegt að sjá þær saman. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta nýja par sé orðið þekktasta gæsapar landsins, enda ekki oft sem hægt er að þekkja eitt gæsapar frá öðrum gæsapörum.

En eignist þessar gæsir afkvæmi, hvernig koma þau þá til með að lita út?
Ég fékk aðstoð hjá google við að svara þeirri spurningu og er orðinn ansi spenntur að bíða eftir sumrinu eftir að hafa séð myndir af afkvæmum þessara tegunda. Ég hef fulla trú á því að þetta par eigi eftir að halda til á Álftanesinu í sumar þar sem fjöldi grágæsa verpir á hverju ári, það er sérstaklega mikið gæsavarp í nágrenni við Jörfaveg og mikið af gæsarungum sem komast þar á legg á hverju sumri. Ég geri því ráð fyrir að það verði ungasýning þar þegar blendingarnir fara að rölta um veginn. Á vefsíðunni birdhybrids.blogspot.com er að finna myndir af blendingum þessara tveggja tegunda, ég skora á ykkur að skoða myndirnar.

Það hafa margir velt því fyrir sér undanfarið hvort að þessar tvær gæsir séu í raun búnar að para sig, en það fór allur vafi af þeim vangaveltum í morgun þegar ég varð vitni að ástaratlotum þeirra á Kasthúsatjörn. Ég veit þó ekki hvaða árangri svona æfingar í vatni skila, en vonandi gera þær betur á landi svo við fáum að sjá unga í sumar. Ég náði nokkrum myndum af þessari merku athöfn og hér fyrir neðan gefur að líta þær myndir.

——————————————————————————————————————–

Previous articleBleshæna fannst á Vífilsstaðavatni 25 apríl.
Next articleÚtvarpsþættir um fuglaskoðun á RÚV.is