Seinnipartinn á þriðjudeginum 25 apríl 2023 fann Viðar Sigurðsson bleshænu á Vífilsstaðavatni. Undirritaður var búinn að vera þar á sama stað um morguninn að mynda Hringöndina sem heldur til þar á vorin en bleshænan var ekki mætt á staðinn þá. Nú þegar þetta er skrifað þann 29 apríl kl. 14 þá er bleshænan enn á sínum stað við vatnið. Ég var þar fyrir nokkrum mínútum að mynda hana annan daginn í röð. Hún heldur til á sama staðnum við norðurbakkann, ekki langt frá bílastæðinu og það er nokkuð gott að komast í ljósmyndafæri við hana þó að það sé kannski ekki auðvelt að ná nærmyndum af henni nema með mikilli þolinmæði. Ef hún fælist við mannaferðir þá syndir hún nokkra metra út á vatnið en kemur alltaf aftur á sitt svæði eftir smá stund. Hún passar að halda alltaf fjarlægð frá mannfólkinu en mikil umferð getur verið um göngustíginn meðfram vatninu. Ef hún er uppi á landi þegar einhver labbar um stíginn þá stingur hún sér til sunds en er svo fljót að fara upp á land aftur þegar viðkomandi göngugarpur er kominn framhjá.
Á sama stað heldur til hópur af skúföndum og í þeim hópi er áðurnefndur hringandarsteggur, það er því möguleiki að ná þarna tveimur flækingsfuglum saman á mynd sem er alveg einstakt tækifæri.

Hér fyrir neðan eru myndir sem eru teknar af bleshænunni á Vífilsstaðavatni þann 28 og 29 apríl 2023.

Previous articleBleshæna – Eurasian coot
Next articleHelsingi og grágæs hafa parað sig á Álftanesi, hvernig verða afkvæmin?