Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20.apríl 2023 kom tilkynning frá Brynjúlfi Brynjúlfssyni fuglaáhugamanni á Höfn í Hornafirði um að sést hefði keisaragæs (Emperor goose) á túninu við bæinn Jaðar í Suðursveit. Þetta er í fyrsta skiptið sem gæs af þessari tegund sést hér á landi og mikil spenna greip um sig á meðal fuglaáhugamanna sem fengu allir tilkynningu um fundinn, en flestir þeirra keppast að sjálfsögðu við að sjá sem flestar tegundir fugla og vilja ólmir haka við nýja tegund á ævilistanum sínum. Fuglaskoðarar halda sem sagt skrá yfir alla fugla sem þeir hafa séð og eru þá með einn lista sem er ævilisti og þar er hakað við alla fugla sem þeir hafa séð á Íslandi yfir ævina og svo árslista sem byrjar að telja upp á nýtt við hver áramót. En svo eru margir með lista fyrir Ísland og aðra lista eins og t.d. alheims lista eða lista yfir önnur lönd ef menn ferðast á milli landa til að skoða fugla. Því getur fólk keppt við sjálft sig á milli ára og reynt að sjá fleiri tegundir en árið á undan.
En spennan sem fylgdi þessari tilkynningu varði ekki lengi og það má segja að þeir hafi verið slegnir utanundir þegar kom í ljós að þessi gæs fengist ekki viðurkennd sem tegund á lista fuglaskoðara vegna þess að menn telja að fuglinn hafi slegist í hóp með gæsum sem voru á leið sinni á varpstöðvar sínar á Íslandi eða með viðkomu á Íslandi en sé í raun ættaður úr fuglagarði en ekki frá heimahögum keisaragæsarinnar.
En hvað um það, keisaragæsin er gríðarlega fallegur fugl og gaman er að sjá hann hvort sem hann fæst viðurkenndur á listann eða ekki. En það gilda strangar reglur um lista fuglaskoðara og allar tegundir sem skráðar eru á listana þurfa að fá samþykki frá sérstakri flækingsfuglanefnd. Það eru þó ekki allir sem taka þessu svona alvarlega og safna heldur tegundum fyrir sjálfan sig án þess að fá listann samþykktan. En baráttan er hins vegar mikil hjá þeim alhörðustu í bransanum og leggja menn mikið á sig til að fá nýja tegund á listann. Margir rjúka úr vinnu og keyra landshornanna á milli til að sjá sjaldgæfar tegundir flækingsfugla sem þá vantar á listann sinn.
Ég veit til þess að einhverjir hafi lagt að stað austur til að sjá gæsina fögru og enn aðrir bíða átekta og vona að hún færi sig nær höfuðborginni. Nú þegar þetta er skrifað er laugardagur og líklega fyrsti dagur sem flestir hafa aflögu í ferðalag eftir að gæsin fannst á fimmtudaginn og því bíð ég spenntur eftir að menn byrji að pósta myndum af gæsinni á flickr, facebook og aðra samfélagsmiðla.
Hér er hægt að lesa meira um keisaragæsina:
Emperor goose – Wikipedia