Nú þegar þetta er skrifað þann 18.apríl 2023 eru flækingsfuglarnir byrjaðir að tínast til landsins.  Það getur verið ótrúlega gaman að eltast við nýjar fuglategundir og það er fátt skemmtilegra að að ná góðum myndum af fuglum sem maður hefur ekki séð áður.  Ég hef fengið fjöldann allan af tilkynningum um flækingsfugla undanfarið og mér hefur tekist að mynda tvo fugla sem voru tilkynntir í nágrenni við mig, það var í Grindvík og í Garði á Reykjanesi.  En sjálfur bý ég á Vatnsleysuströnd.
Í Grindavík fékk Eyjólfur Vilbergsson skemmtilega heimsókn í garðinn sinn, hjá honum er búinn að vera Kjarnbítur í fæði síðustu daga, eitthvað af fuglaáhugafólki hefur fengið að líta fuglinn augum og mynda hann, þar á meðal ég, en ég fór ásamt dætrum mínum í heimsókn til hans laugardaginn 15.apríl um morguninn og eftir stutta bið í eldhúsinu hjá Eyjólfi þá birtist fuglinn í trjánum fyrir utan eldhúsgluggann þar sem Eyjólfur er með fóðurskálar fyrir fuglana.  Fuglinn hélt sig fyrst um sinn efst uppi í trjánum en mjakaði sér hægt og rólega niður í fóðurdallana og gaf séns á að láta mynda sig á leiðinni niður.  En við mynduðum hann í gegnum eldhúsgluggann og ég er því mjög sáttur við hvað myndirnar komu vel út miðað við það.  Það var líka lán að laufblöðin á trjánum eru ekki ennþá farin að taka við sér og því voru engin laufblöð sem skyggðu á fuglinn,  það hefði sennilega ekki gengið vel að ná myndum ef laufblöðin hefðu verið komin og fuglinn hefði getað skýlt sér á bak við þau.
Hér er hægt að sjá myndir sem ég tók af fuglinum í þessari heimsókn.

En nú að túndrugæsinni, þann 13.apríl 2023 fann Eyjólfur Matthíasson túndrugæs í Garði á Reykjanesi, ég reyndi fyrst að finna hana seinnipartinn á föstudeginum 14.apríl, daginn áður en ég fór til Eyjólfs Vilbergssonar að skoða kjarnbítinn.  Ég og dætur mínar við rúntuðum um allt og leituðum af gæsinni á milli Keflavíkur og Garðs og einnig inni í bænum Garði en án árangurs.  Við fórum svo aftur daginn eftir, eftir að við vorum búin að heimsækja Eyjólf Vilbergs um morguninn.  Það var mikil leit gerð og rúntað um mest allan daginn en án árangurs, en auðvitað skoðuðum við fullt af fuglum í leiðinni. Á sunnudeginum var handboltamót hjá dótturinni þannig að það var ekki farið í fuglaleit þann daginn en svo eftir vinnu á mánudeginum þegar ég er að keyra heim þá ákveð ég að skjótast í Garð og freista þess að sjá gæsina, ég var með myndavélina í bílnum og allt var klárt þannig séð, þá var ég líka búinn að fá vísbendingar um að gæsin héldi sig mikið við Útskálakirkju.  Ég tók því stefnuna beint þangað, á sama stað og ég hafði verið að leita af henni deginum áður og mér til mikillar hamingju þá var túndrugæsin fyrsta gæsin sem ég leit augum þegar ég kom akandi eftir afleggjaranum að kirkjunni.
Um leið og ég sá gæsina þá áttaði ég mig á því að myndavélin var ekki tilbúin og það kom upp smá panik eins og gengur og gerist, en ég náði sem betur fer að græja myndavélina með hraði og dúndra nokkrum skotum á gæsina áður en að hópurinn fór á loft og lét sig hverfa út í buskann.  Eini gallinn við þetta allt saman var að dætur mínar tvær sem voru búnar að leita mikið af gæsinni voru ekki með í för og misstu því af tækifæri til að sjá hana.
Myndirnar er hægt að skoða með því að smella hér.

 

Previous articleTúndrugæs – Tundra Bean Goose
Next articleBlesgæs – Greater White-fronted Goose