Óvenjumikið hefur verið um mink og ref á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Guðmundur Björnsson, rekstrarstjóri Meindýravarna Reykjavíkur, segir að 140 minkar hafi veiðst á þessu ári en vanalega séu þeir um 80.
Þeir haldi sig mestmegnis við sjóinn og ár. „Refurinn er sífellt að venjast fólki og umferð og er rólegri,“ segir Guðmundur
. „Hann sést töluvert í efri byggðum, Grafarholti, Úlfarsfelli og hefur sést við Korputorg. Það er óhjákvæmilegt að þetta komi upp þegar við færum okkur nær þeirra umhverfi.“ Bendir hann á að erlendis sjáist refir í stórborgum.
Guðmundur segir minkinn drepa allt sem hann ráði við, fugla og fiska, en haldi sig frá fólki. Hafa sumir verið hræddir um að minkurinn klifri upp í barnavagna en Guðmundur segir engin dæmi um þannig slys.
„Minkurinn fer ekki ofan í vagna til að veiða fólk. En ég skil vel að fólk vilji ekki hafa svona dýr nálægt sér,“ segir hann. Fátítt er að minkar fari inn í híbýli manna en það kemur þó fyrir. „Minkurinn hefur hefur hins vegar sótt í ruslakompur við hús sem standa nálægt sjónum.“
Guðmundur segir lítið hægt að gera til að verjast þessum dýrum. Minkinn sé þó hægt að veiða með löglegum gildrum og refurinn sé skotinn. „Við ráðleggjum fólki að hringja í meindýravarnir og tilkynna,“ segir hann og bendir á að þessi dýr geta bitið sé þeim ógnað.
Fréttin er tekin af: https://www.visir.is/g/2019190929348/fleiri-minkar-og-refir-i-borginni