Þann 14 nóvember 2017 fann Guðmundur Falk víxlnef (white winged crossbill) í Sólbrekku á Suðurnesjum. Þetta er ekki bara fyrsti fugl sinnar tegundar sem finnst á Íslandi heldur í allri Evrópu eða “Western Palearctic”, svo að fundurinn hefur vakið mikla athygli meðal fuglaskoðara um alla Evrópu.
Margir hafa lagt leið sína á Suðurnesin til að bera fuglinn augum og þar með taldir erlendir fuglaskoðarar en við misjafnan árangur þó, víxlnefurinn er felugjarn og er ekki mikið fyrir að sýna sig, hann heldur mest til inni í skóginum þar sem hann hefur næga fæðu. Víxlnefurinn sást ekkert 16 og 17 nóvember svo að margir héldu að hann væri horfinn á braut og sæist ekki framar.
Mig langaði mikið að sjá fuglinn svo að ég kom við í Sólbrekku á sunnudeginum 19.nóvember til að freista gæfunnar. Ég var fyrsti maður á staðinn, mættur í birtingu með dætur mínar tvær með í för og vorum við staðráðin í að sjá fuglinn. En um hádegisbilið þá var þolinmæðin hjá yngstu dömunni búin og ekkert annað í stöðunni en að halda heim á leið. Daginn eftir frétti ég svo að fuglinn hefði komið og stillt sér upp fyrir þann fjölda ljósmyndara og fuglaskoðara sem mættir voru á staðinn, hann lét víst sjá sig um það leiti sem við ókum í burtu svo að það er ekki hægt að segja að heppnin hafi verið með okkur þennan daginn.
Við sáum þó hóp af krossnefjum sem taldi u.þ.b. 12 fugla, það var erfitt að greina hvort að víxlnefurinn væri í þeim hópi vegna þess hversu langt í burtu ég sá þá á flugi. En eftir að við fórum sagði Guðmundur Falk mér að víxlnefurinn hefði blandað sér í þennan hóp þegar hann sást síðar.
Nú þegar þetta er skrifað þann 20 nóvember þá var mér að berast tilkynning um að Guðmundur Falk hafi séð víxlnefinn í hópi yfir 20 krossnefja rétt í þessu, einnig sá hann tvo glóbrystinga sem hafa verið þarna í skóginum síðustu daga og 8 gráþresti. Þannig að það er óhætt er að segja að fuglalífið blómstri í Sólbrekku þessa dagana.
Hér er grein á síðunni Birdguides.com um þennan tiltekna fugl í Sólbrekku.
Á myndinni hér fyrir ofan er hluti þeirra sem mættir voru á svæðið til að sjá víxlnefinn, fleiri voru þó á staðnum og aðrir áttu eftir að bætast við.
Hér er Sindri Skúlason t.v. og Guðmundur Falk t.h.
Á myndinni hér fyrir ofan sést það svæði sem flokkast undir “western palearctic” en það er svæðið sem fuglinn var að sjást á í fyrsta skipti.