Íbúar Húsavíkur hafa síðustu daga notið heimsóknar framandi gesta. Tveir mandarínandarsteggir hafa sest að í skrúðgarði bæjarins og gert sig heimakomna.
Mandarínendur eiga uppruna sinn í Austur-Asíu en vegna skrautlegs útlits hafa þær verið vinsælar í lystigörðum Evrópu og svo virðist sem nokkrar hafi nú flækst hingað til lands.
Gaukur Hjartarson, skipulags- og byggingarfulltrúi í Norðurþingi, hefur fylgst með öndunum síðustu daga. Hann segir þær sauðspakar og auðvelt sé að ná af þeim myndum. Steggirnir eru merktir og koma að öllum líkindum frá Belgíu en þeir komu úr eggi í fyrra.
Ljósmynd/Hörður Jónasson