Helstu fréttir dagsins eru þær að Finnskir fuglaskoðarar fundu nátthegra í fjörunni við Stafnesvita, þeir tilkynntu fundinn til Yann Kolbeins sem kom skilaboðunum áfram. Guðmundur Falk fór þá á staðinn og staðfesti fundinn og myndaði fuglana sem voru þrír, það kom svo í ljós seinna um daginn að þeir voru fjórir. Að sjálfsögðu voru allir hörðustu fuglaskoðararnir mættir á svæðið nokkrum mínútum síðar, menn eru ótrúlega fljótir að taka við sér þegar svona fundur spyrst út.
Það er svo skemmtilegt að fylgjast með þeim sem eru að berjast um fyrstu sætin á listanum yfir þá fuglaskoðara sem hafa séð flesta fugla á Íslandi, ég held að fuglaskoðurum sé að fjölga hratt þessa dagana og keppnin hlýtur að aukast með fjöldanum. Ég var að tala við Yann Kolbeinsson en hann er á leiðinni frá Húsavík til að líta þennan fugl augum í fyrsta skiptið og gangi það eftir þá kemst hann upp í annað sæti listans og er þá kominn með 307 fugla á listann sinn. En eins og staðan er núna þá eru hann og Gunnar Þór Hallgrímsson jafnir í öðru og þriðja sæti. Það breytist líklega síðar í dag.
Ég fór að sjálfsögðu á staðinn og tók nokkrar myndir af nátthegrunum, það voru tveir nátthegrar á staðnum þegar ég mætti, það tók smá stund að finna þá og þeir héldu sig á staðnum þann tíma sem ég var þarna, þeir voru aðeins að færa sig á milli polla. Ég fylgdist með öðrum þeirra veiða síli í einum pollinum, þar voru miklir taktar á ferðinni og gaman að fylgjast með.
Ég þakka Guðmundi Falk fyrir að leyfa mér að nota myndir frá sér með þessari frétt, eftir að hann sendi mér þessar myndir þá fórum við saman og tókum betri myndir svo að þessum verður líklega skipt út síðar.
Uppfært 27 apríl kl. 10:55
Yann sá 2 nátthegra og er því kominn í annað sætið með 307 fugla.
Eitthvað eru menn ósammála um hvað fuglarnir voru margir og ekki hefur fengist staðfest að þeir hafi verið 4. Guðmundur Falk sagði mér þó að hann hafi talað við félaga sína sem voru á öðrum stað á suðurnesjum og þeir voru að horfa á tvo fugla á meðan Guðmundur var að horfa á tvo fugla á öðrum stað. Einnig hitti ég mann sem var staddur um hálfan kílómeter frá vitanum og hann sagðist nýbúinn að horfa á eftir tveimur fuglum fljúga í suður, ég hélt þó áfram að vitanum í hina áttina og þar voru tveir fuglar. Það þarf einhver að sjá þá alla fjóra á sama stað 😉 Nú auglýsi ég hér með eftir upplýsingum ef einhverjir vita meira um þetta.