Tjaldurinn skiptist í þrjár deilitegundir: ostralegus sem finnst í Evrópu, longipes sem finnst í Mið-Asíu og Rússlandi og osculans sem finnst á Kamsjatka og norðurhluta Kína.

Einkenni:  Tjaldurinn er hávaðasamur, það er eitt af hans aðal einkennum. Tjaldurinn er meðal stærstu vaðfugla. Hann er svartur að ofan og niður að bringu, en hvítur undir. Fætur eru rauðbleikir og gildvaxnir, og goggurinn rauðgulur og langur, hliðflatur og lítið eitt uppsveigður. Gumpur er hvítur og augu rauð.

Fæða: Á landi eru ánamaðkar aðal fæðan en í fjörum étur hann sandmaðk, krækling og aðra hryggleysingja. Hann nær fæðunni með því að stinga goggnum í jarðveginn hvað eftir annað.

Kjörlendi:  Sand- og malarfjörur, leirur eða önnur landsvæði nærri sjó. Þeir sækja einnig inn til landsins á tún og meðfram ám en að vetri til halda þeir sig eingöngu til við sjóinn. Tjaldar safnast gjarnan í hópa og það getur fylgt þeim töluverður hávaði.

Fræðiheiti:  Haematopus ostralegus

Lengd:  40 – 45 cm

Þyngd:  460 – 620 gr.

Vænghaf:  80 – 85 cm

Varp og ungatímabil

Sandfjörur og malarfjörur, grandar og fjörukambar eru helstu varpstaðir tjalda. Á varptímanum halda þeira sig einnig á melum, snöggum óræktarmóum, áreyrum og túnum. Stundum verpa tjaldar jafnvel á umferðareyjum eða í órækt rétt við umferðaræðar í þéttbýli. Á síðustu árum hafa þeir einnig orpið á byggingum í Reykjavík þar sem möl er á þökunum. Hreiðurlautin er nokkuð misdjúp, stundum talsvert djúpur bolli en oftast grunn skál. Yfirleitt raða fuglarnir smásteinum eða skeljabrotum í skálina en einnig smákvistum eða þangklóm. Egg í hreiðri eru venjulega þrjú en stundum fjögur eins og er algengast hjá vaðfuglum.

Varptímabil:  Byrjun apríl til seinnipart júní

Fjöldi eggja:  2 – 4 egg

Liggur á: 24 – 27 dagar

Ungatími:  28 – 32 dagar

Dvalartími á Íslandi:  Flestir Íslenskir tjaldar eru farfuglar en einhver hluti heldur til hér allt árið, um það bil 2000 – 3000 fuglar halda til á suður- og vesturstöndinni yfir vetrarmánuðina.

Heimildir:

Tjaldur – Wikipedia, frjálsa alfræðiritið

Eurasian Oystercatchers (earthlife.net)

Previous articleSandlóan í fjörunni
Next articleFarþröstur – American Robin