Sigurður Ægisson tók saman eftirfarandi fróðleiksmola og póstaði þeim á facebook síðu sína, efnið er afritað þaðan.

Safaspæta, komin alla leið frá Norður-Ameríku, hefur undanfarnar vikur og jafnvel mánuði verið í heimsókn á ónefndum stað við Apavatn. Þetta mun vera kvenfugl, a.m.k. ársgamall. Ummerki eftir hann sáust í byrjun ágúst en menn náðu ekki að berja hann augum fyrr en um þremur vikum síðar. Er þarna um afar sjaldgæfa fuglategund að ræða sem einungis hafði tvisvar áður fundist hér á landi, þ.e. í júní árið 1961 við Fagurhólsmýri í Öræfum og í október árið 2007 á Selfossi. Er þetta jafnframt sjötta tilvikið fyrir Evrópu; ein sást á Isles of Scilly, Englandi, í september 1975, önnur í Cork á Írlandi í október 1988 og hin þriðja á Corvo, einni Azoreyja, sömuleiðis í október 1988. Fræðiheitið er Sphyrapicus varius.

Safaspæta verpir í laufskógum í suðurhluta Kanada og norðurhluta Bandaríkjanna en vetrarstöðvarnar eru í mið- og suðurríkjum Bandaríkjanna, í Mið-Ameríku og á eyjum í Karíbahafi. Fartími á haustin stendur yfir á tímabilinu frá seinni hluta ágúst til loka október, en á vorin frá seinni hluta mars og fram eftir maí; líklegt þykir að í vor hafi einhver lægðin gripið spætuna og fært hingað yfir.

Safaspæta er á stærð við skógarþröst, 18-22 cm á lengd, 43-55 g að þyngd og með 34-40 cm vænghaf, að mestu svört og hvít, en bringa oft gulleit og af því ber hún nafn á ensku, er kölluð Yellow-bellied sapsucker. Bæði kyn eru þar að auki í fullorðinsbúningi rauð á enni og ofan á höfði og karlfuglarnir jafnframt framan á hálsinum líka.

Safaspæta heggur lítil göt í trjábörk og eftir nokkurn tíma, þegar safi eða kvoða hefur myndast í þeim, kemur hún og drekkur eða borðar afraksturinn. Hún er með virkar holur í nokkrum trjám á sama tíma og fer, eftir að hafa tæmt á einum stað, yfir á annað; á meðan safnast í nýtæmdu holurnar sem eru þá heimsóttar fljótlega aftur. Jafnframt tekur hún skordýr sem í vökvann sækja eða eru annars staðar á stofnum trjánna, og einnig ber og ávexti.

Erlendis eru birki og hlynur vinsælustu matarkistur þessarar umræddu spætutegundar en göt hafa þó fundist á yfir 1.000 trjátegundum. Á Íslandi hefur hún m.a. sést gogga í álm, birki, elri, lerki, selju, viðju og ösp.

Nú þegar haustmánuður er innan seilingar og aðrir kaldari eftir það hafa fuglaáhugamenn í ráði að setja hnetusmjör, banana og tólg á valda staði á núverandi landsvæði safaspætunnar, í þeirri von að hún nái að lifa til vors og þaðan áfram.

 

Previous articleVaðlatíta – Calidris fuscicollis – White-rumped Sandpiper
Next articleHringmáfur – Larus delawarensis – Ring-Billed Gull