Þann 15.maí 2017 var ég í einni af mínum venjulegu fuglakönnunarferðum sem ég fer stundum í á morgnanna áður en ég mæti í vinnu.  Þennan dag var stefnan tekin á Breiðabólstaðatjörn á Álftanesi sem er vinsæl tjörn hjá fuglaáhugamönnum.  Þegar ég nálgast tjörnina þá sé ég úr fjarlægð að það er einhver óvenjuleg önd við fjær bakka tjarnarinnar í töluverðri fjarlægð, ég átta mig ekki á því alveg strax hvaða önd þetta er en þegar ég nálgast tjörnina þá flýgur hún upp og lætur sig hverfa út í buskann, ég sé strax þegar hún var komin á flug að þarna er skeiðandarsteggur á ferðinni, goggurinn leyndi sér ekki en hann er risavaxinn á þessum öndum, mér þótti þetta mjög óvenjulegt og spennandi því ég hef ekki séð skeiðönd áður hér á höfðuborgarsvæðinu og ég átti hálf bágt með að trúa þessu svo að ég ákvað að hafa auga með svæðinu næstu daga til að athuga hvort ég rækist á þennan fallega skeiðandarstegg aftur og til að fullvissa mig um að ég hafi ekki verið að ímynda mér þetta.

En eftir að ég fann skeiðandarstegginn þennan dag þá hefur mér tekist að finna hann nokkrum sinnum aftur, hann er búin að vera að flækjast á milli Kasthúsatjarnar, Breiðabólstaðatjarnar og Bessastaðatjarnar á Álftanesinu en mér hefur þótt hann vera ansi styggur og það hefur ekki verið auðvelt að komast í ljósmyndafæri við hann.  Eitthvað hefur hann þó vanist umferðinni því ég er alltaf að komast nær og nær honum og í morgun þann 6.júní þá tókst mér að ná myndum af honum en þó úr svolítilli fjarlægð.  Ég læt myndirnar fylgja hér með fréttinni en ég vonast til þess að ná betri myndum af honum í náinni framtíð.

Hér fyrir neðan finnur þú myndirnar sem ég tók af skeiðandarsteggnum þennan dag.

Previous articleHrossagaukur – Common Snipe
Next articleFundu tvo andarunga í maga urriða