Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20 apríl 2017 gerðist sá merki atburður að ný tegund bættist á fuglalista landsins. Háleggur (himantopus himantopus)  sást hér í fyrsta skiptið.  Það var hann Guðmundur Falk sem sá fuglinn í Garði á Reykjanesi þar sem hann var að flækjast á milli síkja, þá meina ég að fuglinn hafi verið að flækjast milli síkja en ég efast ekki um að Guðmundur hafi verið að því líka.  Tilkynning kom frá Guðmundi kl. 20:47 um að hann hafi séð þennan fugl og þegar ég mæti á svæðið um klukkan 08:40 að morgni föstudagsins 21 apríl þá voru þar mættir á staðinn nokkrir alhörðustu fuglaskoðaðarnir eins og Heiðar Rafn Sverrisson, Alex Máni og Jóhann Óli Hilmarsson, aðra þekkti ég ekki með nafni.  Einhverjar myndir eru byrjaðar að birtast af fuglinum í netheimum og einhverjir hafa greinilega komist í gott færi við hann.  Ég læt fylgja nokkrar myndir af fuglinum hér fyrir neðan sem ég tók þennan umrædda morgun, en þær mættu alveg vera skarpari, ég hef allavegna ástæðu til að fara aftur og reyna að ná betri myndum af honum.

Þetta er fuglategund númer 399 sem sést á Íslandi,  það verður spennandi að vita hvaða fugl lendir í sæti 400.

Previous articleÞúfutittlingur – Meadow pipit
Next articleNátthegrar fundust við Stafnesvita á Suðurnesjum.