Margæsin er minnsta gæsin sem sést á Íslandi, hún er svört að hluta en höfuð hennar, háls og bringa eru svört, bak og vængir eru grábrún en kviðurinn og síður eru ljósgrá, síðurnar verða þó rákóttari eftir því sem aftar á búkinn dregur.  Á svörtum hálsinum eru hvítar rákir á hvorri hlið nema á ungfuglum sem eru alveg svartir á hálsi.  Ungfuglinn er einnig gráleitur á síðum.  Goggur og fætur eru svört að lit.  Margæsin (56-61cm löng) er ekki mikið stærri en stokkönd (50-65 cm löng).

Árið 2018 verpti margæs í landi Bessastaða á Álftanesi, það er fyrsta varp þeirra hér á landi sem vitað er um.  Þetta kom fram í pistli sem forsetinn sendi frá sér 5 apríl 2021.  Á Bessastöðum starfar fólk sem hefur mikinn áhuga á fuglum og hefur fylgst mikið með þeim hin síðari ár.  Í þessum pistli forseta tilkynnti hann einnig að margæsirnar væru komnar til landsins, nokkrum dögum fyrr en árið á undan. 

Í ljósi þess að margæsin er farin að verpa hér á landi þá tel ég töluverðar líkur á því að hér eigi eftir að myndast Íslenskur stofn í framtíðinni.

Einkenni:
Smávaxin gæs, svört að hluta með svart stutt stél.

Fæða:
Marhálmur, þang,  þörungar og smádýr.  Lifa einnig á grasi og vetrarsánu korni.

Kjörlendi:
Margæsin er meiri sjófugl en aðrar gæsir, hún heldur mikið til á sjónum, í vogum, leirum og á grunnum víkum við ströndina.  Á síðari árum hefur hún einnig tekið upp á því að leita mikið á tún og í kornrækt nærri sjó, talið er að hún hafi lært þessa hegðun af öðrum gæsum sem sækja meira í tún og ræktað land.

Fræðiheiti:  Margæsir skiptast í þessar þrjár undirtegundir:

  • Austræn margæs (Branta bernicla bernicla) – dökk á kvið
  • Margæs (Branta bernicla hrota) – ljós á kvið
  • Vestræn margæs (Branta bernicla nigricans) – svört á kvið

Margæs (Branta bernicla hrota) er sú tegund sem hefur viðkomu á Íslandi bæði um vor og haust, einstaka Austrænar margæsir sjást einning á hverju ári í hópi margæsa sem hingað koma.

Lengd:  56-61 cm

Þyngd:  1.3 – 1.6 kg.

Vænghaf:  110–120 cm

Varp og ungatímabil

Varptímabil:
Í júní byrjar varptímabilið.  Bæði kk og kvk byggja hreiðrið sem er staðsett nálægt vatni í grunnri holu í jörðu eða á mosahaug sem er fóðraður mýkra efni eins og grasi og dúni.

Fjöldi eggja:
3-5 slétt, örlítið gljáandi, rjómahvít egg

Liggur á:
24-26 daga.  Kvenfuglinn liggur einn á eggjunum en karlfuglinn heldur sig nálægt.

Ungatími:
Ungarnir eru þaktir gráum dúni á efri hluta og hvítum dúni á kvið.  Þeir yfirgefa hreiðrið fljótlega eftir að þeir klekjast út og verða fleygir eftir u.þ.b. sex vikur.  Fjölskyldan heldur sig saman fram að næsta varptíma og ungarnir verða kynþroska tveggja ára.

Dvalartími á Íslandi:
Hafa viðkomu hér á leið sinni á varpstöðvarnar.  Fyrstu fuglarnir koma frá Írlandi í byrjun apríl og þeim fjölgar jafnt og þétt til 10. maí en þá er hámarki náð. Þær hverfa af landi brott í lok maí en koma svo aftur að hausti og dvelja þá frá seinni hluta ágúst og fram í byrjun nóvember.  Dvalarstaður þeirra er við strendur Faxaflóa og við sunnanverðan Breiðafjörð.

Previous articleFuglaskoðunarhús í Sandgerði
Next articleBjúgnefjur á Hornafirði